miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslensk lýsa slær í gegn hjá Waitrose

5. ágúst 2011 kl. 15:21

Lýsuflök

Stóraukin sala á ,,annars konar” fiski hjá bresku stórmarkaðskeðjunni

Sala á óhefðbundnum matfiski eins og makríl, ufsa frá Cornwall og íslenskri lýsu hefur stóraukist í  verslunum stórmarkaðskeðjunnar Waitrose í Bretlandi. Söluaukningin kemur í kjölfar herferðar í sjónvarpi síðastliðinn vetur þar sem neytendur voru hvattir til þess að gefa gaum að öðrum fisktegundum en laxi, rækju, ýsu, þorski og túnfiski sem eru söluhæstu tegundirnar.  

Talsmenn Waitrose upplýsa að frá áramótum hafi sala á ufsanum frá Cornwall aukist um 200% , á makríl um 100%  og íslensku lýsunni um 35% í verslunum stórmarkaðskeðjunnar.

Talið er að salan muni taka kipp á ný næstkomandi mánudag þegar sjónvarpsþátturinn verður sýndur aftur í Bretlandi en þekktur breskur matreiðslumeistari að nafni Hugh Fearnley-Whittingstall er potturinn og pannan í þessari herferð.