föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslensk skip fá að veiða 85 þúsund tonn af loðnu

24. október 2013 kl. 09:59

Nágrannaþjóðirnar Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar fá tæp 45 þúsund tonn af loðnu frá Íslendingum

Í hlut íslenskra skipa koma aðeins tæp 85 þúsund tonn af loðnu í upphafsúthlutun á vertíðinni 2013/2014 eftir að Íslendingar hafa látið aðrar þjóðir hafa loðnu vegna ýmissa samninga sem eru í gildi milli þjóðanna, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Heildaraflamark í loðnu á vertíðinni er 160 þúsund tonn samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Ísland færi í upphafi 81% af heildarúthlutuninni, Grænland 11% og Noregur 8%. Grunnskiptingin er því þannig að Ísland fær 129.600 tonn, Grænland 17.600 tonn og Noregur 12.800 tonn.

Íslendingar láta Norðmenn hafa 34.921 tonn af loðnu á vertíðinni vegna Smugusamningsins. Þá fá Norðmenn bætur frá Íslendingum vegna síðustu vertíðar upp á 1.468 tonn. Alls fá því Norðmenn 49.189 tonn af Íslandsloðnunni, eða um 30% af heildinni. Þar af mega þeir veiða 40.869 tonn í íslensku lögsögunni.

Grænlendingar fá einnig 485 tonn í bætur frá Íslendingum. Grænlenski loðnukvótinn verður því alls 18.085 tonn.

Samkvæmt fiskveiðisamningi milli Íslands og Færeyja láta Íslendingar frændum sínum í Færeyjum í té 5% af heildaraflamarki í loðnu. Að þessu sinni fá Færeyingar 8 þúsund tonn frá Íslandi.

Þegar þetta flókna dæmi hefur verið gert upp þá fá nágrannaþjóðirnar Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar samtals 44.836 tonn af loðnu sem Íslendingar taka af sínum upphafskvóta. Eftir standa því 84.726 tonn af loðnu sem íslensk skipa mega veiða. Þar af eru 4,8% tekin í pottana fyrir sérúthlutanir, eða 4.067 tonn sem fara inn á skiptimarkað Fiskistofu. Þá eru eftir 80.659 tonn af loðnu sem úthlutað er á skip.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.