þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jafngildir framleiðslunni í laxeldi hér á landi

10. júní 2019 kl. 13:00

Laxeldi Noregi.

Nýjustu upplýsingar frá Noregi greina frá því að 13.000 tonn af eldislaxi hafa drepist af völdum þörungablómans við strendur Norður-Noregs, aðallega í fylkjunum Norðurland og Troms.

Verðmæti þessara þúsunda tonna nemur líklega vel rúmlega 10 milljörðum íslenskra króna. Er þá miðað við að kílóverðið sé 62 norskar krónur.

Eins og Fiskifréttir sögðu frá nýlega hefur Norska Fiskistofan, Fiskeridirektoratet, skýrt frá því að tilkynningar hafi einnig borist um laxadauða við Norður-Írland og víðar.

Til að setja þessar tölur frá Noregi í íslenskt samhengi þá var ársframleiðslan af eldislaxi hér við land 13.500 tonnum á síðasta ári. Í Noregi nam ársframleiðslan hins vegar 1,2 milljónum tonna árið 2017. Laxadauðinn í Noregi jafngildir því ársframleiðslunni hér heima, en er um eitt prósent framleiðslunnar í Noregi. Laxabændur og aðrir hagsmunaaðilar bera sig þó vel, að því gefnu að ekki fari enn verr. Þeir hafa tækifæri á því að ná tapi sínu til baka að nokkru leyti með því að ala sinn lax upp í meiri sláturstærð.

Þörungarnir sem valdið hafa þessum usla við Noreg eru af tegundinni Chrysochromulina, sem er algeng svifþörungategund við Noreg en getur valdið tjóni þegar hún blómstrar við hagstæðar aðstæður, einkum á vorin. Sjaldnast hefur hún þó sést í jafn miklu magni og nú.

Þó varð þörungablóminn enn umfangsmeiri við Noreg í maí og júní árið 1991, og árið 2008 ollu þörungar einnig tjóni.

Norska Hafrannsóknastofnunin, H.I., segir þörungana valda skemmdum á tálknum eldisfiska og því sé jafnan grannt fylgst með þegar þetta ástand kemur upp.