föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jan Mayen þorskurinn ráðgáta

svavar hávarðsson
4. desember 2018 kl. 12:00

Mynd/HAG

Kastljósið beinist að íslenska þorskstofninum.

Enn liggja engar skýringar fyrir um uppruna þorsks sem norskt línu- og netaveiðiskip hefur mokveitt við Jan Mayen síðan í sumar. Ólíklegt er talið að um sérstakan stofn sé að ræða og unnið með þá kenningu að þorskurinn sem þar veiðist eigi uppruna sinn að rekja til Íslands, Grænlands eða Barentshafs.

Norsku sjómennirnir sendu sýni af aflanum til norsku Hafrannsóknastofnunarinnar til að fá úr því skorið úr hvaða þorskstofni veiðin er, en í síðustu veiðiferð línu- og netaskipsins Loran frá Godøya í Noregi var landað 300 tonnum af frystum þorski og 70 tonnum af grálúðu í Álasundi.

Á vef Samtaka útgerðarmanna í Noregi, Fiskebåt, er sagt frá fundi sem norska Hafrannsóknastofnunin hélt ásamt sjó- og útgerðarmönnum í Álasundi.

Þar var greint frá því að þorskurinn sem þar veiðist er stór – og er að mestu leyti níu ára gamall, að því er fiskifræðingurinn Bjarte Bogstad greindi frá á fundinum. Ekki hefur farið fram erfðafræðileg greining, en til stendur að gera það.

Um umrunan segir Bogstad það líklegra að um þorsk frá Íslandi eða Grænlandi sé að ræða, en þorsk úr Barentshafi. Vegalengdir á milli hafsvæðanna gefi það til kynna, þó ekki sé annað. Einnig styrkir það kenninguna um að þorskurinn sé ættaður frá Íslandi eða Grænlandi að sýni af þorski sem veiddist á svæðinu 2010 og 2011 reyndist ekki úr Barentshafi.

Skipstjórinn á Loran sagði frá því á fundinum að upphaflega hafi verið farið á miðin við Jan Mayen til veiða á grálúðu – en þorskurinn hafi reynst gefa sig í miklu magni þvert á væntingar áhafnarinnar.

Eins vekur það athygli að þorskurinn sem veiddist við Jan Mayen var fullur af hrognum.

Í Fiskifréttum hefur þetta komið fram um málið: 

Samtök útgerðarmanna í Noregi, Fiskebåt, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem frá þessum veiðum við Jan Mayen er greint. Samtökin segja að þetta sé í fyrsta sinn á seinni tímum sem veiðist eitthvað að ráði af þorski og grálúðu á þessu hafsvæði. Nú liggi fyrir það verkefni að vísindamenn norsku Hafrannsóknastofnunarinnar skeri úr um hvort þorskurinn sem um ræðir sé úr íslenska þorskstofninum, sé ættaður frá Grænlandi eða hvort um sé að ræða Barentshafsþorskstofninn.

Segir í tilkynningu Fiskebåt að þorskur sem veiddist í sérstökum rannsóknaleiðangri árið 2011 hafi verið greindur til uppruna og niðurstaðan þá var að hann væri alla vega alveg örugglega ekki Barentshafsþorskur. Eins eru vangaveltur um hvort um sérstakan stofn sé að ræða sem tilheyrir engum þeirra sem þekktir eru á hafsvæðinu við Ísland, Grænland og Noreg.

Muni sækja sinn rétt

Samtökin segja hins vegar að ef um íslenskan eða grænlenskan þorsk sé að ræða, sem haldi sig nú á þessum slóðum, eigi Norðmenn rétt til veiða úr viðkomandi stofni.

„Ef rannsóknir sýna að um sérstakan stofn sé að ræða, eða að hann sé ættaður úr stofnum frá Íslandi eða Grænlandi, þá eru þetta mest spennandi fréttir úr veiðum á villtum stofnum í langan tíma,“ segir Jan Ivar Maråk, aðstoðarframkvæmdastjóri Fiskebåt, og lætur í það skína að norskir hagsmunir gætu þá teygt sig inn í íslenska lögsögu.

Viðmælendur Fiskifrétta segja tíðindin athyglisverð, en vilja lítið segja um íslenska hagsmuni að svo komnu máli. Þó liggur fyrir að um stórfrétt gæti verið að ræða ef sannast að þorskur, hvaðan sem hann þá kemur, sé farinn að bunka sig upp við Jan Mayen, en eyjan liggur í 540 kílómetra fjarlægð norðaustur frá Íslandi. Á tíma útfærslu íslensku efnahagslögsögunnar reis deila við Norðmenn um nýtingarrétt við Jan Mayen – en samningur sem í gildi er nær aðeins til loðnuveiða. Þess má þó geta að um langt árabil hefur engrar loðnu orðið vart á hafsvæðinu við eyjuna.

Vilja kortleggja miðin

Þorskurinn sem hefur veiðst við Jan Mayen frá því í sumar liggur á 30 til 600 metra dýpi en grálúðan veiðist að mestu á 600 til 900 metra dýpi. Útgerð bátsins Loran fékk úthlutaðan rannsóknakvóta á þorski til að fara aftur á miðin eftir tvo fyrstu túrana við Jan Mayen og kortleggja betur veiðarnar. Fyrstu tvær veiðiferðirnar voru að frumkvæði og á ábyrgð útgerðarinnar. Það er líka athyglisvert að bæði ýsa og lúða hefur veiðst sem meðafli, segir í skrifum norskra útgerðarmanna. Fiskurinn er vel haldinn og virðist hafa nóg æti.

Jan Ivar Maråk, aðstoðarframkvæmdastjóri Fiskebåt, kveðst í samtali við Fiskeribladet vonast til þess að þetta verði til þess að unnt verði að skipuleggja veiðar á þorski og grálúðu við Jan Mayen til framtíðar.

„Fiskebåt hefur auk þess haft frumkvæði að því að gerðar verði rannsóknir á vistkerfinu við Jan Mayen undir handleiðslu norsku Hafrannsóknastofnunarinnar með það að markmiði að betri þekking verði til um fiskistofnana á svæðinu. Við vonumst til þess að finna líka veiðanlega loðnu á svæðinu sem myndi gagnast norskum hagsmunum í samningum um skiptingu á loðnustofninum við Ísland, Grænland og Jan Mayen,“ segir Maråk.

Audun Maråk, framkvæmdastjóri Fiskebåt, segir í viðtali við Fiskifréttir að niðurstaðna sé að vænta úr rannsóknum á því hvaðan þorskurinn er kominn, hvort þetta er Barentshafsþorskur eða kannski íslenskur eða grænlenskur þorskur.

„Við munum síðan ræða við stjórnvöld í Noregi um framhaldið því við teljum nauðsynlegt að setja takmörk á veiðarnar. Við getum ekki gert það sem Íslendingar gerðu í makrílnum. Íslendingar fóru á ólympískar makrílveiðar en við munum ræða bæði við norsku hafrannsóknarstofnunina og fiskveiðiyfirvöld.“

Hann segir mörgum spurningum ósvarað varðandi þessar óvæntu þorskveiðar við Jan Mayen.

„Ég á svo sem enga von á að þetta verði mikill afli þarna. En ef þetta dugar nokkrum bátum þá skiptir það máli. Ef þorskurinn verður þarna meira en kannski tvö ár og ef þetta reynist íslenskur þorskur þá myndum við óska eftir viðræðum við íslensk stjórnvöld um framhaldið.“

Hann segir spennandi að sjá hvort þorskurinn haldi áfram að veiðast þarna við Jan Mayen þegar kemur fram í desember.

„Ef þetta reynist vera íslenskur stofn þá gæti það bent til þess að íslenski stofninn sé að vaxa til muna og fara yfir mun stærra svæði.“

Samgangur í sögunni

En er mögulegt að þetta sé íslenskur þorskur sem þarna veiðist?

Einar Hjörleifsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir samskiptin á milli hafsvæða við Ísland og Grænland séu staðreynd. Sögulega sé það vel þekkt að fullorðinn þorskur gangi inn á Íslandsmið. Merktur þorskur af Íslandsmiðum hefur líka veiðst í grænlenskri lögsögu, eða við Hvarf nánar tiltekið. Hinsvegar er um fáa fiska að ræða, þannig meginflæðið er frá Grænlandi til Íslands.

„Varðandi Jan Mayen þá segja kollegar mínir norskir að aflagögn frá þessu svæði séu vart teljandi. Þarna hefur vissulega veiðst þorskur en má segja að það sé í stykkjavís. Í rannsóknaleiðöngrum hefur fundist þarna m.a. eitthvað af ýsu, ufsa, steinbít og grálúðu, fyrir utan auðvitað loðnu og síld,“ segir Einar en nefnir jafnframt að skrif Bjarna Sæmundssonar, fiskifræðings, frá fjórða áratugnum séu athyglisverð í þessu samhengi.

„Ég gróf upp grein í Ægi frá 1933 sem Bjarni skrifaði og þá talar hann um að Norðmenn hafi merkt þorska við Jan Mayen árið 1930 og þrír þeirra hafi endurheimst á Íslandsmiðum; við Norðurland og Vestmannaeyjar,“ segir Einar sem sýnir að samgangur fisks á milli Íslands og Jan Mayen hefur verið sannaður með rannsóknum.

Einar segir að Hafrannsóknastofnunin hér muni án efa fá niðurstöður systurstofnunar sinnar á þeim sýnum sem nú eru til rannsóknar.

„Þetta er ennþá óskrifað blað og eflaust geta sjómenn gert einhverja túra á jaðarsvæði eins og Jan Mayen líklegast er. Hitt má efast um að hægt sé að veiða þarna mikið til lengri tíma litið. Það er óljóst hvaðan fiskurinn er upprunninn og hvað mikið er þarna á ferðinni. Það kæmi mér á óvart ef þarna er mikið magn sem standi undir langtíma veiðum, en maður á kannski aldrei að segja aldrei. Hlýnun er í umræðunni og breytingar á útbreiðslu tegunda í kjölfar hennar. Hvort þessi fiskgengd tengist því er ómögulegt að segja um á þessu stigi málsins,“ segir Einar.