sunnudagur, 20. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jóhann hættir hjá Hafró

7. janúar 2016 kl. 15:46

Jóhann Sigurjónsson

Jóhann Sigurjónsson verður sérstakur erindreki stjórnvalda um málefni hafsins

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, fer til starfa í utanríkisráðuneytinu þann 1. apríl n.k. Jóhann verður sérstakur erindreki íslenskra stjórnvalda varðandi málefni hafsins, að því er fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins. 

Á undanförnum árum hefur alþjóðlegt samstarf og umræða um málefni hafsins aukist mjög, sem kallar á aukið samstarf og samhæfingu hvað varðar fyrirsvar Íslands um málefni hafsins á alþjóðavettvangi. Meðal annars hafa orðið miklar breytingar á umhverfisaðstæðum í norðurhöfum, sem kalla á aukið samstarf ríkja um umhverfisvernd, siglingar, veiðar á deili- og flökkustofnum o.fl. viðfangsefni. Starf Jóhanns felst í að samræma verkefni varðandi málefni hafsins sem heyra undir fjögur ráðuneyti – atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, innanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og utanríkisráðuneytið og leiða samráðsvettvang ráðuneytanna á þessu sviði. Jafnframt mun hann taka þátt í starfi á alþjóðavettvangi og sinna stefnumótun stjórnvalda í málefnum hafsins.

Jóhann Sigurjónsson er menntaður sjávarlíffræðingur og hefur starfað sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun frá árinu 1981 og sem forstjóri stofnunarinnar frá 1998. Á árunum 1996 til 1998 fór Jóhann með auðlindamál í utanríkisráðuneytinu og var jafnframt aðalsamningamaður Íslands varðandi deilistofna á Norður Atlantshafi. Jóhann hefur víðtæka reynslu af málefnum hafsins og samningum um nýtingu fiskistofna á alþjóðavettvangi. Um þessar mundir er hann m.a. einn af varaforsetum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og í formannsteymi nefndar sem starfar á vegum Norðurskautsráðsins og fjallar um framtíðarskipan samstarfs um hafið á Norðurslóðum, m.a. vernd og nýtingu náttúruauðlinda í Norður-Íshafi og aðliggjandi svæðum, segir ennfremur á vef ráðuneytisins.