sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kafað á hrygningarslóð þorska

Guðsteinn Bjarnason
4. maí 2019 kl. 12:00

Þorskurinn mættur í Þistilfjörð til að hrygna. MYND/Erlendur Bogason

Erlendur Bogason kafari og ljósmyndari hefur um árabil kannað atferli fiska á köfunarferðum sínum við strendur landsins. Árlega heimsækir hann hrygningarslóð þorska í Þistilfirði

Fáir Íslendingar hafa væntanlega kynnst atferli fiska í hafinu við strendur Íslands betur úr návígi en Erlendur Bogason kafari. Í meira en tvo áratugi hefur hann lagt leið sína austur í Þistilfjörð þar sem hann kafar á hrygningarslóð þorska skammt sunnan við Þórshöfn. Þar tekur hann bæði ljósmyndir og myndbönd, og nú seinni árin einnig með hljóði.

„Þetta er náttúrlega einstakt þarna. Það eru bara ekkert margir staðir eftir í heiminum þar sem þorskurinn er í svona grunnu vatni ár eftir ár að hrygna á sama stað,“ segir Erlendur, sem syndir og kafar með fiskunum.

Hann veit nákvæmlega hvert hann á að fara því þorskurinn kemur alltaf á svipuðum tíma á nákvæmlega sama stað til að hrygna. Þar er hægt að ganga að honum á átta til tólf metra dýði

„Þetta er það nákvæmt að ég tek bara landmið sem ég horfi á. Þar kasta ég akkerinu og fer niður og þá fer maður beint ofan í torfuna.“

Óvenju góðar aðstæður
Aðstæður eru misgóðar á þessum árstíma. Á síðasta ári var lítið að sjá vegna leiðindaveðurs, skyggnið var lélegt og mikill þörungur í sjónum.

„Svo fór ég núna í byrjun apríl og það voru kjöraðstæður, kristalstær sjór og sólskin og mikið magn af þorski. Þetta var á laugardegi og ég var þarna fram á fimmtudag. Á miðvikudagskvöldi þegar ég kafaði sá maður smá breytingar, en þegar ég kom aftur á fimmtudagsmorgni var allur stórfiskurinn farinn, bara smáfiskur eftir. Smáfiskurinn faldi sig ofan í þaranum. Síðan fór ég suður á föstudegi og kom aftur á laugardegi, en þá var allur fiskur farinn af öllu svæðinu.“

Erlendur segir þetta sérstakt því yfirleitt er þorskurinn kominn á þessar slóðir í endaðan mars og fer ekki fyrr en í kringum 25. apríl, nema það geri norðanátt með töluverðri undiröldu.

„Hann fór óvenjulega snemma af þessu svæði. Við vitum ekkert af hverju en það hefur verið eitthvað sem hefur valdið því að hann fór. Hann hefur líklegast hrygnt þarna á miðvikudeginum og er síðan bara farinn. Því við þóttumst sjá egg í sjónum á laugardeginum þegar við vorum að kafa.“

Tók upp hrygningarhljóðin
Nú síðast fór Erlendur einnig að taka upp hljóð með myndböndunum.

„Það var nú eiginlega bara tilviljun. Ég er með mjög góða vél og ákvað að skilja vélina eftir, láta hana rúlla meðan ég fór að taka ljósmyndir. Svo fórum við að skoða þetta eftir á og þá komu fram þessi hljóð sem fræðingar telja að séu hrygningarhljóð sem þorskurinn gefur frá sér.“

Erlendur hefur tekið eftir greinilegum breytingum á þorskinum undanfarin ár. Hann er orðinn mun stærri en áður sást.

„Maður sér á myndunum hvað hann hefur stækkað, þorskurinn.“

Erlendur fékk fyrir nokkru styrk frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins til að búa til vef um lífríkið í sjónum við Ísland. Hann hyggst nýta þetta myndefni til að setja upp vefsíðu sem heitir Sjávarlíf.

„Þar verða bæði myndbönd og ljósmyndir. Við höfum verið að fylgjast með bæði rauðmaga, steinbít og þorski og eigum heilmikið efni sem þarf að klippa og vinna úr. Aðstæðurnar í vetur hafa eiginlega verið svo góðar að maður hefur bara verið að safna efni, ekki gefið sér tíma til að klippa.“