sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kallað eftir mótvægisaðgerðum

26. júlí 2018 kl. 12:00

FISK Seafood hefur verið einn stærsti atvinnurekandinn í Grundarfirði. MYND/HAG

Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar minnir FISK Seafood á samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins.

Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar kallar eftir mótvægisaðgerðum af hálfu FISK Seafood ehf. vegna lokunar rækjuvinnslu fyrirtækisins á staðnum, þar sem 21 starfsmanni var sagt upp.

Þetta kemur fram í ályktun bæjarráðs á fundi sínum 19. júlí. Þar lýsir bæjarráðið yfir „vilja til góðs samstarfs við fyrirtækið og kallar eftir mótvægisaðgerðum af hálfu fyrirtækisins til að lágmarka skaða samfélagsins.“

Bæjarráð minnir á að FISK Seafood er „einn stærsti atvinnurekandi og fasteignaeigandi bæjarins og ber því mikla samfélagslega ábyrgð í Grundarfirði,“

Friðbjörn Ásbjörnsson, aðstoðarframkvæmdastjóri FISK Seafood, sat fundinn en sagði fátt, að sögn Jósefs Ó. Kjartanssonar, forseta bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar.

Fyrirtækið er gagnrýnt fyrir að hafa hvorki látið neinn vita fyrirfram af áformum lokun rækjuvinnslunnar, né hafa gefið nein svör um mótvægisaðgerðir.

„Það er náttúrlega voða erfitt að gagnrýna menn sem segja bara að reksturinn gangi ekki upp, ég ætla ekkert að efast um það,“ segir Jósef. „En að það sé ekki hægt að tala við okkur og segja okkur frá þessu, það er aðallega það sem við höfum verið að gagnrýna.“