sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kanada: Selakvóti aukinn um 50.000 dýr

27. apríl 2010 kl. 12:00

Kanadísk stjórnvöld hafa tilkynnt að leyft verði að veiða 330.000 vöðuseli við austurströnd landsins sem er 50.000 dýra aukning frá fyrra ári. Talið er að vöðuselsstofninn séu nú í kringum 6,9 milljónir dýr og hefur hann þrefaldast að stærð síðan á áttunda áratug 20. aldarinnar.

Um 70% af vöðuselskvótanum eru úthlutuð til veiða á svæðinu austan Nýfundnalands og Labrador en 30% við St. Lawrence flóa.

Auk vöðusels er leyft að veiða 50.000 útseli á þessu ári og 8.200 blöðruseli. Útselsstofninn er talinn 300.000 dýr og blöðruselsstofninn 600.000 dýr og fara þessir stofnar vaxandi ár frá ári.

Þeir sem búa í strandhéruðum Kanada geta sótt um leyfi til að veiða sel til heimilisbrúks og mega þá taka allt að sex seli hver.

Um sex þúsund Kanadamenn taka þátt í selveiðum á hverju ári á Atlantshafsströnd Kanada og hefur um fjórðungur skinnanna verið seldur til Evrópu. Nú hefur Evrópusambandið bannað verslun með selaafurðir og því er sá markaður lokaður.

Í frétt AFP fréttastofunnar segir að Kanadamenn og Grænlendingar veiði yfir helminginn af þeim 900.000 selum sem veiddir séu í heiminum.  Önnur selveiðilönd séu Noregur, Namibía, Ísland, Rússland og Bandaríkin.