sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kanna forsendur lífdísils á fiskiskip

Guðsteinn Bjarnason
25. mars 2020 kl. 08:00

Repjuakur. Aðsend mynd

Starfshópur um sjálfbæra og stórtæka ræktun orkujurta tekur til starfa

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur nú skipað starfshóp þann um ræktun og nýtingu orkujurta, sem tilkynnt var um síðastliðið haust að yrði stofnaður.

Hópurinn á að kanna forsendur fyrir stórtækri og sjálfbærri ræktun orkujurta á Íslandi, meðal annars til framleiðaslu á lífdísil sem nota mætti til að knýja fiskiskip.

Íslenski fiskiskipaflotinn brennir árlega alls um 160 þúsund tonnum af dísilolíu. Reynslan sýnir að hver hektari lands í repjuræktun gefur af sér um eitt tonn af repjuolíu, þannig að miðað við 10 prósent íblöndun þyrfti að rækta repju hér á landi á um 16 þúsund hekturum lands.

Samgöngustofa og þar á undan Siglingastofnun hefur um langt skeið unnið að rannsóknum á og tilraunum með ræktun orkujurta á Íslandi og nýtingu þeirra. Ennfremur hefur Skinney-Þinganes prófað að rækta repju á stórbúi sínu á Flatey á Mýrum og sett olíuna á skip sín í tilraunaskyni.

Jón Bernódusson á Samgöngustofu hefur haft umsjón með þessu verkefni og hann á sæti í starfshópnum ásamt Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarmanni sjávarútvegsráðherra, Dr. Gylfa Árnasyni prófessor við Háskóla Íslands, Hlín Hólm frá Samgöngustofu, Jóni Þorsteini Gunnarssyni frá Fóðurblöndunni, Ólafi Eggertssyni bóndi á Þorvaldseyri, Söndru Ásgrímsdóttur frá Mannviti og Sigurbergi Björnssyni, skrifstofustjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Starfshópurinn á að skila tillögum og drögum að aðgerðaáætlun fyrir lok september á þessu ári.

Olían yrði hjáafurð

Fiskifréttir hafa fjallað nokkuð um þessar hugmyndir. Strax árið 2012 var rætt við Jón í Fiskifréttum þar sem hann sagði að yrði rétt að málum staðið ætti að verða framleiða lífdísil úr repju sem ræktuð væri hér á landi sem dygði fyrir allan fiskiskipaflotann.

„Vegna þess hve repjumjölið er verðmætt þá tel ég að það standi eitt og sér undir kostnaði við ræktunina og því er olían hjáafurð. Enginn annar orkugjafi, sem komið gæti í stað jarðefnaolíu, státar af slíku,“ sagði Jón fyrir átta árum.

Jón hefur birt nokkrar skýrslur um þessi efni og bendir þar meðal annars á að gott ræktunarland hér á landi sé einungis um sex prósent af heildarflatarmáli landsins, eða um 600 þúsund hektarar. Þar af séu 120 þúsund hektarar nú þegar í ræktun en um 480 þúsund hektara landsvæði er enn ónotað og tiltækt til ræktunar.

„Efling akuryrkju, ræktun orkujurta og nýting repjuolíu getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á margvíslegan hátt,“ er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningu frá ráðuneytinu. „Rannsóknir sýna að hægt er að framleiða hér á landi lífdísil úr repjuolíu sem nýta megi sem eldsneyti á þorra þeirra véla sem gerðar eru fyrir dísilolíu úr jarðolíu. Íslensk framleiðsla sparar innflutning og vinnsla afurðanna skapar atvinnu og eykur sjálfbærni,“ segir hann.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 19. mars