föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fordómarnir eru lífseigir

Guðsteinn Bjarnason
3. nóvember 2017 kl. 07:00

Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. MYND/HAG

Félag kvenna í sjávarútvegi hefur það lokatakmark að verða óþarft og leggja sjálft sig niður. Enn örlar nokkuð á því viðhorfi að konur séu síður hæfir en karlar í þessum geira.

Ég er alveg sannfærð um að konur eru fullfærar um að vinna flest þau störf sem karlar hafa verið að vinna í gegnum tíðina,“ segir Freyja Önundardóttir, formaður Félags kvenna í sjávarútvegi. „Það hefur bara vantað einhverja áhugatengingu og opnun fyrir konur inn í sjávarútveginn Því auðvitað geta konur gert flest sem þær vilja, þar á meðal verið sjómenn.“

Áður fyrr var það ríkjandi viðhorf að karlmenn ættu auðveldara með að fara frá fjölskyldu sinni og börnum heldur en konur.„ Þeir áttu bara að klippa á tilfinningar sínar. En nú sem betur fer er það þannig að karlar viðurkenna orðið þörf sína til að vera hjá fjölskyldum sínum og vilja það líka ekkert síður en konur. Þessi mikla verkaskipting er í raun liðin undir lok og þeir sem ekki sjá það, þeir bara virka, held ég, ekki í fjölskyldum nú orðið.“

Í september birtu samtökinviðamikla könnun um stöðu kvenna í sjávarútvegi hér á landi, sem þær fengu Gallup til að gera fyrir sig í samstarfi við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.Þar kom meðal annars í ljós að einungis fimmtán prósent fyrirtækja sögðu konur vera á meðal æðstu stjórnenda en 64% fyrirtækja höfðu karl sem æðsta stjórnanda. Í þriðjungi fyrirtækja er engin kona á meðal eigenda og í einungis fjórtán prósentum fyrirtækja áttu konur meira en helmingshlut.

Hlutfallið er jafnara þegar kemur að millistjórnendum og hjá mun fleiri fyrirtækjum sinna konur skrifstofustörfum en karlar.

Hjartans mál
„Við erum að opna í okkur hjartað með því að sýna þessa rannsókn og niðurstöður hennar,“ segir Freyja. „Við erum afskaplega stoltar af henni, höfum lagt mikla vinnu í verkið og viljum koma henni á framfæri sem víðast. Niðurstöðurnar eru mjög áhugaverðar.“

Meðal þess sem kemur á óvart eru svör við spurningum um viðhorf til þekkingar og hæfni kvenna í sjávarútvegi.

Þannig segjast einungis 55 prósent karla og 39 prósent kvenna vera ósammála því að karlar búi yfir meiri þekkingu í sjávarútvegi en konur. Sömuleiðis segist einungis 51 prósent karla ósammála því að karlar hafi meiri hæfni en konur í sjávarútvegi.

„Mér finnst þetta í raun ótrúlegt að enn skuli vera við lýði það viðhorf að konur og karlar séu ekki jafn fær um hlutina.“

Þá segir Freyja sérlega athyglisvert að karlar almennt skuli síður en konur telja tengslanet skipta máli til að ná frama í starfi.

Fjölskyldunet er tengslanet
„Svo er auðvitað líka merkilegt að konur sem hafa alist upp í sjávarútvegi fara frekar inn í geirann og virðast frekar hafa tækifæri. Það virðist ríkja trú á konum í fjölskyldufyrirtækjum, þar eiga þær frekar möguleika.“

Tengslanet kvenna og áhrif í sjávarútvegi hefur þannig frekar byggst á fjölskyldutengslum, meðan karlar hafa sitt kunningjanet einnig utan fjölskyldunnar. Fjölskyldunet er í sjálfu sér tengslanet en vel sé hugsanlegt að karlar horfi síður á það sem slíkt.

„Þeim er þetta bara svo eðlislægt, virðist vera, og kunningjanetið er svo sjálfsagt. Tengslanet karla í sjávarútvegi er gífurlega stórt og sterkt og mikið. Það þekkjast flestir og menn tala mikið saman, skiptast á skoðunum og leita ráða, en það er eins og þeir líti almennt ekki á þetta sem tengslanet. Við konur í sjávarútvegi aftur á móti vinnum markvisst að því að búa okkur til okkar tengslanet.“

Helsta verkefni félagsins hefur þar af leiðandi snúist um að styðja konur meðal annars í því að styrkja tengslanet sitt í sjávarútvegi.„Við höfum verið að vekja athygli á stöðu kvenna og nú höfum við niðurstöður rannsóknarinnar og finnum að karlar vilja hafa fleiri konur í sjávarútvegi.“

Erfiðleikastigið ekkert brjálað
Hún segist sannfærð um að karlar hafi fullan hug á að bæta úr þessu þannig að konur nái lengra innan fyrirtækjanna, fari inn í stjórnir þeirra og verði yfirstjórnendur. Markmið félagsins Konur í sjávarútvegi er að sögn Freyju í raun sára einfalt, það er að félagið sé óþarft. Þegar því markmiði er náð verði hægt að leggja niður félagið og að við taki félag fólks í sjávarútvegi.

Hún fagnar þeim áhuga sem alþjóðasamtakin WSI hafa sýnt íslenska félaginu. „Við finnum að það er litið til okkar og þess sem við höfum verið að gera.“

Hún segist hafa hitt Mary Christine Monfort, formann WSI, fyrir nokkrum árum og tók þá fljótt eftir því að viðhorf þeirra hafi að mörgu leyti verið mjög ólík til að byrja með.

„Við höfðum ekki síst gjörólíka trú á karlmönnunum innan geirans. Ég sagði henni hvað okkur er vel tekið hér heima en það er eins og þetta sé lokaðri heimur sem hún hrærist í. Í mínum huga er erfiðleikastigið ekkert brjálæðislegt. Hér átta flestir sig á mikivægi þess að konur og karlar vinna best saman.“

Hægar breytingar
Alþjóðleg samtök kvenna í sjávarútvegi, WSI, voru formlega stofnuð hér á landi í september síðastliðinum, í tengslum við sjávarútvegssýninguna Icefish.

Mary Christine Monfort er formaður þeirra samtaka. Hún segir það hafa verið mikilvægt fyrir samtökin að koma hingað til lands.

„Okkur fannst þetta gott tákn vegna þess að Ísland er í fararbroddi varðandi kynjajafnrétti í heiminum. Svo var alþjóðlega sjávarútvegsráðstefnan haldin hér þannig að okkur fannst rétt að gera þetta af því tilefni,“ sagði Monfort í stuttu spjalli við Fiskifréttir.

Alþjóðasamtökin WSI hafa komist að raun um að meðal yfirmanna sjávarútvegsfyrirtækja séu aðeins um tíu prósent konur, og að meðal æðstu stjórnenda, forstjóra og eigenda eru konur aðeins eitt prósent.

Monfort segir mikla vinnu eftir óunna við að breyta þessu, en hreyfing sé þó komin á málið þannig að hún sé bjartsýn á framtíðina.

„Þetta er komið á dagskrá, fólk er farið að heyra um þetta bæði í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum. Og í sjávarútveginum erum við að byrja að sjá breytingar þótt enn séu hindranir í veginum. Og þær hindranir eru mjög misjafnar eftir löndum.“