miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kavíar-styrjan í Kaspíahafi stórlega ofveidd

1. mars 2010 kl. 12:59

Beluga-styrjan í Kaspíahafi, sem gefur frá sér hrognin í hinn eina sanna svarta kavíar, hefur verið svo gróflega ofveidd síðustu áratugina að stofninn eru nú aðeins 10% af því sem hann áður var.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem bandarískir og rússneskir vísindamenn hafa tekið saman og birt verður í vísindaritinu Conservation Biology. Samkvæmt rannsóknum þeirra er veiði úr stofninum fjórum til fimm sinnum meiri en hæfilegt þykir til þess að hægt sé að tala um sjálfbæra nýtingu. Þeir leggja til að verndaraðgerðir beinist að því að draga úr ofveiði fullorðins fisks í stað þess að treysta eingöngu á klak og seiðasleppingar.

Svört hrogn beluga-styrjunnar eru verðmætust allra hrogna og seljast þau á 8.000 dollara kílóið að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum Fis.com. Það jafngildir einni milljón íslenskra króna.

Beluga-styrjan er langlíf skepna og getur orðið meira en 100 ára gömul. Hún verður ekki kynþroska fyrr en 9-20 ára.