þriðjudagur, 24. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kjúklingafjaðrir geta nýst í fiskafóður

21. ágúst 2019 kl. 12:00

Regnbogasilungur. MYND/Aðsend

Matís og Reykjagarður gera tilraunir með fjaðurmjöl.

Fjaðurmjöl hefur lengi verið notað í fóður í Norður- og Suður-Ameríku. Sömuleiðis hefur það á síðustu árum verið að ryðja sér til rúms í Evrópu.

Matvælarannsóknarfyrirtækið Matís og kjúklingaframleiðandinn Reykjagarður hafa verið að kanna möguleikann á því að nýta kjúklingafjaðrir í fóðurmjöl fyrir fiskeldisfyrirtæki.

Þessu samstarfsverkefni ern ú lokið og gefin hefur verið út skýrsla með niðurstöðum, þar sem fram kemur að fjaðurmjöl sé hægt að nýta í fóður fyrir svín, loðdýr, gæludýr og fiska.

Hvað varðar fiskeldið sérstaklega hafa rannsóknir sýnt að hægt er að skipta út allt að 30 prósentum af fiskimjöli út fyrir fjaðurmjöl án þess að það hafi áhrif á vöxt eldisfisks.

„Ekki þarf að greiða fyrir innflutning hráefnis og ekki þarf að veiða eða rækta frumhráefnið, því það er vannýtt hliðarafurð í vinnslu á kjúklingi,“ segir í frásögn Matís af rannsóknarverkefninu.

„Fjaðurmjöl hefur um 80% próteininnihald og amínósýrusamsetningin er lík amínósýrusamsetningu fiskimjöls en þó þarf að bæta mjölið lítillega með tilliti til ákveðinna amínósýra.“

Höfundar skýrslunnar eru Ragnheiður Sveinþórsdóttir, Margrét Geirsdóttir og Jón Árnason, en rannsóknin var styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi.

Ódýr prótíngjafi

Fram kemur að fjaðurmjöl hafi lengi verið notað í fóður í Norður- og Suður-Ameríku. Nú á seinustu árum hefur það einnig verið að ryðja sér til rúms sem ódýr prótíngjafi fyrir eldisdýr í Evrópu.

„Þegar nýta á fjaðrir í mjöl er mikilvægt að rjúfa próteinin sem fjaðrirnar innihalda til að gera þau meltanleg,“ segir í frásögn Matís. „Sú aðferð sem hefur rutt sér hvað mest til rúms og var reynd í þessu verkefni er vatnsrof með suðu undir þrýstingi, þurrkun og mölun.“

Þá segir að nýting á kjúklingafjöðrum í eldisfóður hafi „jákvæð umhverfisleg áhrif þar sem hráefnið hefur hingað til verið urðað með tilheyrandi sótspori og kostnaði en með nýtingu á fjöðrum í próteinríkt mjöl eru allar hliðarafurðir í kjúklingaframleiðslu nýttar, þannig má stuðla að því að ná markmiðum um minni urðun.“

Tekið er fram að ekki þurfi að greiða fyrir innflutning á hráefninu, það sé ódýrt og hvorki þurfi að veiða það né rækta heldur sé þetta vannýtt hliðarafurð úr vinnslu á kjúklingi.

Tækjaframleiðendur taka við sér

Þá segir í skýrslunni að tækjaframleiðendur í Evrópu séu farnir að sjá sér hag í að bjóða upp á tækjabúnað sem auðveldi fyrirtækjum að nýta sér nýjungar við nýtingu á ónýttum aukaafurðum úr alifuglaframleiðslu.

Gerðar voru tilraunir til að meðhöndla fjaðrir þannig að þær nýtist sem best í fóðurmjöl sem meltanlegt yrði fyrir eldisdýr. Efnagreiningar voru gerðar á fjaðurmjölinu og gerðar voru tilraunir með að skipta fiskimjöli út í fóðri fyrir fjaðurmjöl.

Gerðar hafa verið tilraunir með að gefa sjóbassa fóður með fjaðurmjöli og einnig hafa verið gerðar tilraunir á fóðrun regnbogasilungs með fjaðurmjöli. Niðurstöður úr þeim sýna að fjaðurmjöl getur vel komið í staðinn fyrir fiskimjöl í fóðrun regnbogasilungs.