miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kortlögðu 47.000 ferkílómetra hafbotns

25. júlí 2019 kl. 11:30

Afrakstur þriggja kortlagningarleiðangra í Íslandsdjúpi árin 2018 og 2019, alls 92.000 ferkílómetrar

Þegar átakið hófst árið 2017 höfðu um 12,3% hafsbotns verið kortlögð og stefnt að því að ljúka við að kortleggja neðan við 100 metra dýpi á 13 árum. Slíkt hefði kallað á allt að 60 mælingadaga á ári að jafnaði.

Leiðangursmenn á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni kortlögðu í júnímánuði um 47.000 ferkílómetra hafsbotns í Íslandsdjúpi suður af landinu. Það er stærsta svæði sem nokkru sinni hefur verið kortlagt með fjölgeislamælingum í einum leiðangri í íslenskri efnahagslögsögu.

Frá þessu segir í frétt á heimasíðu stofnunarinnar. Þar með hefur nær þriðjungur hafsbotns innan marka lögsögunnar verið kortlagður. Leiðangurinn var árangursríkur í mörgum skilningi; farið var yfir sæfjöll og eldstöðvar og flak þýska „gullskipsins“ SS Minden birtist í rannsóknagögnum, segir í fréttinni.

Jafnframt segir:

Mælingarnar í júní 2019 voru beint framhald þess sem hliðstæðir leiðangrar sumarið 2018 skiluðu. Stærstur hluti rannsóknasvæðisins er þakinn seti sem safnast hefur fyrir með ýmsu móti í rás tímans. Samfelld mynd er komin af tveimur aðalfarvegunum kenndum við Reynisdjúp og Mýrdalsjökul frá landgrunnsbrún í norðri að lögsögumörkum í suðri. Leiðir þeirra og fleiri farvega sameinast í meginfarvegi Norður-Atlantshafsins, Maury farveginum, syðst á mælingasvæðinu. Víða sjást merki um neðansjávarskriður.

Í rótum Íslands-Færeyjahryggjarins komu í ljós misgengissprungur, sæfjöll eða eldstöðvar sem í sumum tilvikum var ekki vitað um áður. Þar koma fram ýmiss setform, svo sem setöldur, hryggir og stallar.

SS Minden

Samhliða fjölgeislamælingum voru gerðar jarðlagamælingar (setþykktarmælingar) sem sýna afstöðu setlaga nokkra tugi metra niður fyrir hafsbotninn.

Í leiðangrinum var mælt yfir flaki þýska flutningaskipsins SS Minden sem sökk í september árið 1939 djúpt suðaustur af Íslandi. Íslensk stjórnvöld heimiluðu erlendu fyrirtæki að leita að verðmætum í SS Minden sumarið 2018 en án árangurs. Verðmætin voru talin vera allt að 4 tonn af gulli. Í leiðangri Árna Friðrikssonar birtist flak SS Minden sem bogalaga þústir á 120 metra löngum kafla á 2.275 metra dýpi. Í fréttinni eru mörg kort og skýringarmyndir og þar er staðsetning SS Minden merkt með stjörnu á einu þeirra.

Átaksverkefni um kortlagningu

Á heimleiðinni var farið yfir tvo þekkta jarðhitastaði við Eldey á Reykjaneshrygg og staðfest að þar er virkt uppstreymi.

Leiðangur Árna Friðrikssonar stóð yfir 4.-28. júní 2019 og er hluti af átaksverkefni Hafrannsóknastofnunar um kortlagningu hafsbotns í efnahagslögsögu Íslands. Markmiðið er að afla þekkingar sem nýtast mun á ýmsan hátt og er forsenda frekari vísindarannsókna við nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu, á hafsbotni og undir hafsbotni.

Þegar átakið hófst árið 2017 höfðu um 12,3% hafsbotns verið kortlögð og stefnt að því að ljúka við að kortleggja neðan við 100 metra dýpi á 13 árum. Slíkt hefði kallað á allt að 60 mælingadaga á ári að jafnaði.

Nú þremur árum síðar hafa um 29% efnahagslögsögunnar verið kortlögð eða liðlega 216.000 ferkílómetrar af alls 754.000 km2 efnahagslögsögu landsins.

Leiðangursstjóri var Guðrún Helgadóttir og skipstjóri var Heimir Örn Hafsteinsson.