þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Köstuðu þorski í sjóinn að verðmæti 510 milljarða

5. ágúst 2011 kl. 11:00

Þorskur

Nýjar og sláandi tölur um brottkast ESB-skipa 1963 til 2008

Nýjar og sláandi tölur hafa verið birtar um brottkast fiskiskipa ESB-ríkja. Á árunum 1963 til 2008 hafa ESB-skip hent fyrir borð um 2,1 milljón tonna af þorski að verðmæti 2,7 milljarðar punda, að því er fram kemur á Guardian.co.uk. Þetta jafngildir um 510 milljörðum ISK sem þannig hefur verið kastað á glæ.

Hér er um að ræða brottkast á þorski í Norðursjó, Ermarsundi og Skagerrak. Tölur þessar byggjast á athugun sjálfstæðrar breskrar rannsóknastofnunar, New Economic Foundation.

Fleiri tegundum en þorski er hent í sjóinn. Brottkastið er af ýmsum toga en er aðallega afleiðing af regluverki ESB varðandi stjórn fiskveiða; fiski er hent sem bátar hafa ekki kvóta fyrir og er bannað að koma með í land, smáfiski er hent og loks lendir verðlítill fiskur aftur í sjóinn sem ekki þykir borga sig að koma með í land.