þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Krabbaskip Knarr/Nautic það fyrsta sinnar gerðar

Guðjón Guðmundsson
21. maí 2018 kl. 09:00

Sérhannað skip til krabbaveiða á norðlægum slóðum fyrir rússneska útgerð

 Fulltrúar stórs útgerðarfélags í Rússlandi leituðu til Haraldar Árnasonar, framkvæmdastjóra Knarr Maritime, fyrir um það bil þremur mánuðum síðan. Erindið var að leita lausna í hönnun á nýju krabbaveiðiskipi. Nú stefnir allt í að rússneska fyrirtækið kaupi hönnun íslenska skipahönnunarfyrirtækisins Nautic sem er innan raða Knarr og að skipið verði vel búið búnaði Knarr fyrirtækjanna. Þetta mun verða fyrsta sérhannaða krabbaveiðiskipið af þessari stærð í heimi. Búið er að sækja um þrjú einkaleyfi fyrir úrfærslum í hönnuninni.

Orðstír Knarr og Nautic hefur farið vaxandi víða um heim, ekki síst í Rússlandi, vegna nýstárlegra lausna og byltingarkenndrar skipahönnunar þar sem helsta útlitseinkennið er stefnið, hið svokallaða Enduro Bow sem einnig hefur verið kallað Bárðarbunga eftir höfundi sínum, Bárði Hafsteinssyni skipaverkfræðing. Skip þessarar gerðar þykja ekki síst henta vel til veiða á norðlægum slóðum því þau eru nánast alveg lokuð að framanverðu og því síður útsett fyrir yfirísingu og/eða ágjöf.

Skammur fyrirvari

Nautic hefur stofnað verkfræðistofu í Rússlandi sem kallast Nautic Rus og vinnur að hönnun togara fyrir stærsta útgerðarfyrirtæki Rússlands, Norebo. Það eru því mörg sverð á lofti hjá Alfreð Tulinius, skipahönnuði og eiganda Nautic. Hann sagði að það hefði reyndar komið sér í opna skjöldu þegar Haraldur kom með þau skilaboð fyrir um það bil mánuði að þeir hefðu verið boðaðir á fund með öðru útgerðarfyrirtæki í Vladivostok og þyrftu að vera þar tíu dögum síðar og kynna sína hugmynd að krabbaveiðiskipi.

Það var ekki komið eitt strik á blað en þeir hjá Nautic höfðu engu að síður undirbúið sig og kynnt sér krabbaveiðar og krabbaskip. Gott samstarf var til að mynda við Gísla Unnsteinsson skipstjóra á krabbaskipi í Norður-Noregi sem veitti Alfreð og hans mönnum góða innsýn í veiðarnar og við hvað menn þurfa að glíma.

Alfreð segir að í gegnum tíðina hafi þetta gengið að mestu þannig fyrir sig að gömul skip hafi verið aðlöguð og breytt fyrir krabbaveiðar. Þegar ný skip hafi verið gerð hafi þau markast af eldri hönnun en nýjar leiðir ekki verið kannaðar.

Teiknað í flugvélinni

„Við greindum stöðuna og vandamálin og þá hvernig best væri að hanna slíkt skip. Farið var yfir ýmsar pælingar með Gísla. Upphaflega ætluðum við að draga inn gildrurnar að aftan þannig að þær væru í skjóli við skipið. Gísli upplýsti okkur um að það gengi ekki að draga gildrurnar því þær geta skemmst við það, og yrði skipið því að sigla á móts við þær.  Og þannig unnum við okkur áfram að niðurstöðu sem við kynntum svo loks á fundinum í Vladivostok fyrir skemmstu,“ segir Alfreð.

Hann settist niður og teiknaði og nýtti hverja stund sem gafst. Flugið frá Moskvu til Vladivostok tók níu tíma og Alfreð teiknaði meðan rafhlaðan entist í tölvunni. Lent var í Vladivostok kl. 10 að morgni og fundurinn var strax daginn eftir. Enn vantaði talsvert upp á teikninguna. Þennan dag vann Alfreð frá því kl. fjögur síðdegis til kl. fimm um morguninn og kláraði hana.

Þeim hafði verið tilkynnt að fundurinn með fulltrúum útgerðarfélagsins yrði í 40 mínútur. Frá útgerðinni voru mættir tíu manns en auk Alfreðs var Jónas Tryggvason framkvæmdastjóri Knarr Russia. Fundurinn stóð svo í þrjár klukkustundir í stað 40 mínútna og var stjórnarfundi útgerðarfélagsins sem átti að vera í beinu framhaldi fluttur í annað rými af þeim sökum.

„Fyrsta spurningin sem ég fékk var hvort við hefðum áður hannað krabbaskip. „Nei, sem betur fer ekki,“ svaraði ég. „Nú, hvað áttu við?“ var ég spurður. Þá útskýrði ég fyrir þeim að ég liti svo á að krabbaskip hefði reyndar bara alls ekki verið hannað frá grunni fyrr en nú.“

„ну вы крутые“ – „þið eruð svalir“

Máli sínu til stuðnings varpaði íslenska kynningin nú upp táknrænum glærum undir yfirskriftinni „Today vs. Future“

„Today“ sýndi gamlan þverbyggðan Scania vörubíl með opin langpall og þar undir algenga útfærslu á krabbaskipi sem er þá frambyggt og með mikið og opið þilfar þar aftanvið, eins og gamli Scania vörubíllinn, allt galopið fyrir vindum, frosti, ágjöf og takmarkalausri yfirísingu á þilfarsbúnað og gildrum.

„Future“ gaf hinsvegar fyrst að líta hátæknivæddan, rafknúinn og straumlínulagaðan Tesla vörubíl með lokaðan kassavagn til samaburðar við opna Scania bílinn. Þar fyrir neðan var mynd af straumlínulöguðu, yfirbyggðu og lokuðu krabbaskipi Knarr/Nautic, þar sem öll vinnan fer fram á svæðum sem eru varin fyrir vindum, frosti, ágjöf og yfirísingu.

Fundurinn fór fram á rússnesku enda Jónas Tryggvason almælandi á þá tungu. Hann skýrði að fundi loknum sínum mönnum frá því að hrokkið hefði upp úr einum Rússanum á fundinum setning á móðurmálinu „ну вы крутые“ sem þýdd yfir á íslensku er á þessa leið: „Þið eruð svalir“.

400 milljónir kr. fyrir túrinn

60.000 tonna kvóti er á kóngakrabba í Rússlandi.  Með nýsmíði gefst einstökum útgerðum kostur að sækja um kvótaaukningu til sín í tengslum við svokallaðan fjárfestingakvóta sem nú er verið að úthluta í Rússlandi til fimmtán ára. Sú aukning getur orðið allveruleg. Kóngakrabbi getur orðið allt að tíu kg að þyngd og 25 cm á breidd á búk, en yfir 100 cm með örmum. Rússar hafa einkum selt hann til Japans en heimamarkaður er einnig vaxandi. Fyrir unninn krabba fást um 20 dollarar á kíló og nýtingin er ekki nema 60% á hverjum krabba. Fyrir lifandi krabba fást hins vegar 50-60 dollarar í Japan fyrir kílóið. Þetta þýðir að í einum túr gæti nýja krabbaskipið verið að skila um 400 milljónum króna í aflaverðmæti. Framundan er fyrirhugað samstarf við Sæplast um þróun á sérstökum kerjum sem eru útbúin með tengingu fyrir sjóskipta- og súrefnisgjafakerfi fyrir lifandi krabba. Alfreð segir að jafnframt sé unnið að hönnun sérstakrar útfærslu skipsins sem yrði þá eingöngu ætlað fyrir lifandi krabba.

Lengra veiðitímabil

Fram til þessa hafa veiðar Rússa farið fram á norðlægum slóðum í Barentshafi og við Kamtshatkaskaga á opnum skipum. Vertíðin hefur staðið yfir í um átta mánuði eða á meðan veður og íslögn leyfir. Þar hafa áhafnirnar þó þurft að berjast við yfirísaðar gildrur og búnað í öllum veðrum í allt að 50 stiga frosti, vindi, ágjöf og yfirísingu. Veiðarnar hafa sömuleiðis takmarkast af hinni norðlægu veiðislóð því eftir að gildrur hafa verið lagðar getur hafið lagt á augabragði á þessum slóðum sem getur torveldað mjög veiðarnar. Með nýja skipinu verður hægt að lengja veiðitímabilið og sækja inn á svæði þar sem ekki hefur verið hægt að veiða áður vegna íss.

Knarr krabbaskipið er með yfirbyggðu gildruþilfari og gildrurnar eru annað hvort dregnar upp í gegnum brunn sem er staðsettur framan við mitt skip eða í gegnum lúgu á hliðinni. Skipið getur af þeim sökum og vegna byggingarlagsins stundað veiðar í mun verra sjólagi en þau krabbaskip sem nú eru í notkun, og dregið inn gildrurnar á íslögðum sjó. Í brúnni er stórt glerborð þar sem skipstjórnendur geta séð beint niður á gildruþilfarið og fylgst með gildrunum í gegnum brunninn og stýrt skipinu þannig að brunnur sé beint yfir gildrunum þegar þær eru teknar um borð.

Skipið getur verið með um 4.000 gildrur um borð í einu. Vinnan fer þannig fram að gildrurnar eru dregnar upp í gegnum brunninn eða hliðarlúguna, tæmdar af krabba á færibönd sem flytur þá til vinnslu eða lifandi í ker.  Nýrri beitu er komið fyrir í gildrunum strax framarlega í skipinu og þeim raðað saman og fluttar þannig aftur eftir skipinu á færibandi þar sem þær eru þá aðskildar og hver þeirra síðan hengd á línu og settar í sjó aftur út um lúgu á skut skipins.  Hönnunin tryggir stórbættan aðbúnað og öryggi sjómanna við þessar veiðar, betri meðferð á hráefni og gildrubúnaði. Sömuleiðis er gert ráð fyrir töluvert meiri viðveru á veiðislóðum og þá jafnvel á svæðum sem eru orðin hulin lagnarís og þar af leiðandi aukinni veiði og stóraukinni framlegð á fjárfestingunni.

Sjávarútvegsýningin í Brussel 2018

Verkefnið var kynnt fyrir ýmsum rússneskum aðilum á sjávarútvegsýningunni í Brussel í síðasta mánuði.  Knarr var meðal annars boðið að vera með sérstaka kynningu fyrir áhugasama aðila á verkefninu á lokuðum fundi á vegum rússneska sjávarútvegsráðuneytisins.  Alfreð segir skemmst frá því að segja að áhuginn var framar öllum væntingum. Hann segir spennandi að sjá hver framvindan verður.