mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kræklingar eiga að hreinsa mengun í dönsku stöðuvatni

12. september 2012 kl. 09:00

Kræklingur.

Blágrænuþörungar og aðrir þörungar ógna heilsu manna og dýra í Haraldsted stöðuvatninu

 

Danir eru með nýstárlegar hugmyndir uppi um að hreinsa Haraldsted stöðuvatnið sem er á miðju Sjálandi. Ætlunin er að flytja kræklinga þangað sem eiga að hreinsa mengun, að því er fram kemur á vefnum fiskerforum.dk.

Blágrænuþörungar og aðrir þörungar ógna heilsu manna og dýra í stöðuvatninu. Þegar sumarhitinn fer sem hæst gjósa eitraðir þörungar upp og raska jafnvæginu í lífríki vatnsins. Þá er heldur ekki geðslegt fyrir fólk að fá sér sundsprett í vatninu en við það er vinsælt útivistarsvæði.

Nú vill sveitarfélagið í Ringsted endurheimta gæði stöðuvatnsins. Ráðgert er að setja út línur með kræklingum á en þeir geta lifað á menguninni og hreinsað vatnið um leið. Kræklingarnir gæða sér jafnvel á eiturþörungunum. Þessi aðferð hefur ekki áður verið reynd í dönskum stöðuvötnum. Sótt hefur verið um styrk til verkefnisins til umhverfisráðuneytisins. Ef tekst að fá 6 milljónir danskra króna (34 milljónir ISK) verður hafist handa.