laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kræklingur – hinn nýi frygðarauki

9. febrúar 2011 kl. 15:24

Kræklingur.

Skoskir kræklingabændur búast við stóraukinni sölu bláskeljar í Valentínusarvikunni

Valentínusardagurinn er 14. febrúar ár hvert og fylgir honum aukin sölumennska af margvíslegu tagi. Skoskir skelfiskbændur láta ekki sitt eftir liggja enda hefur skelfiskur lengi verið álitinn lostaörvandi, einkum og sér í lagi ostrur. Skelfiskbændurnir búast við að sala á ostrum fjórfaldist í Valentínusarvikunni.

Á síðustu árum hefur sala á kræklingum aukist verulega af þessu tilefni og er bláskelin nú kölluð ,,nýja ástarfæðan”. Aukinn áhugi á kræklingi er einnig rakinn til mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum á síðustu árum um hollustu skelfisks eins og kræklings.

Bæði ostrur og kræklingur hafa að geyma holl steinefni eins og magnesíum, kopar, joð, járn og selen auk sinks sem tengt er kynorku og frjósemi. Þá eru Omega-3 fitusýrurnar ótaldar en þær hafa jákvæð áhrif á hjartastarfsemina og fleira, sem kunnugt er.

Helsti framleiðandi ostra og kræklings í Bretlandi er SSMG, samvinnufyrirtæki skelfiskbænda á vesturströnd Skotlands og á Hjaltlandi. Fyrirtækið dreifir vörunni til smásöluverslana og veitingastaða.

Sjávarútvegsvefurinn FishUpdate.com skýrir frá þessu.