laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kristján Þór verður sjávarútvegsráðherra

30. nóvember 2017 kl. 12:56

Kristján Þór Júlíusson, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. MYND/HAG

Embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur í hlut Sjálfstæðisflokksins í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Kristján Þór Júlíusson verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, og tekur þar með við af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Kristján Þór gegndi starfi mennta- og menningarmálaráðherra í fráfarandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Þá var hann heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árin 2013 til 2017. Hann var bæjarstjóri Akureyrar árin 1998 til 2006 en hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2007.

Í stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar, sem birtur var í morgun, er meðal annars boðuð endurskoðun laga um veiðigjöld, rætt um að efla þurfi hafrannsóknir og jafnframt að efla þurfi hinar dreifðu sjávarbyggðir.

Þar er jafnframt talað um mikilvægi þess að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir og sjávarbyggðir og viðhalda fjölbreytni í vaxtarmöguleikum til að tryggja afkomuöryggi þeirra. Þá er rætt um að byggja þurfi upp fiskeldi með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og í framhaldinu þurfi að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir leyfisveitingar í fiskeldi.

„Íslenskur sjávarútvegur stendur mjög framarlega á alþjóðavísu vegna þeirrar áherslu sem lögð er á sjálfbæra auðlindanýtingu, rannsóknir og þróun,“ segir í sáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.