miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kveða þurfi skýrt á um tengsl

Guðsteinn Bjarnason
25. október 2019 kl. 16:00

Frá aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í síðustu viku. MYND/GB

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda (LS), segir „vart hægt að álykta annað en það séu orðin tóm þegar stjórnvöld lýsa áhyggjum sínum yfir samþjöppun veiðiheimilda.“

Smábátaeigendur héldu aðalfund sinn í síðustu viku og kusu sér nýjan formann. Hann er Þorlákur Halldórsson, sjómaður í Grindavík, og tekur við af Axel Helgasyni sem hefur verið formaður í þrjú ár en gaf ekki kost á sér áfram.

Axel var kvaddur með lofsorðum frá bæði Erni Pálssyni framkvæmdastjóra og Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

„Frá fyrsta degi hefur Axel vaxið í starfi og er ekkert lát á,“ sagði Örn og Kristján Þór sagðist geta vottað það að þau samskipti sem hafi átt við „þennan ágæta mann eru þess eðlis að hann hefur unnið samtökunum mjög mikið gagn af heiðarlegri framkomu, málefnalegri.“

Örn Pálsson sagði í ávarpi sínu á fundinum það vera sína skoðun, „eftir að hafa rýnt í málflutning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um veiðigjöld, að Landssamband smábátaeigenda á litla samleið með þeim félagasamtökum. Smábátaeigendur eiga að skerpa línur sem skilja milli þeirra og stórútgerðarinnar í einstökum málum.“

Hann er þarna að vísa til þess að SFS hafi lagst gegn breytingum á lækkun veiðigjalda til handa smábátasjómönnum. LS hafði fyrir ári lagt áherslu á að frítekjumark verði hækkað og niðurstaðan varð sú að afslátturinn var hækkaður úr 20 prósentum í 40 prósent af reiknuðu gjaldi undir sex milljónum.

Hann sagði afkomu smábátaeigenda vegna þessa nema 103 milljónum alls. SFS hafi hins vegar staðið gegn þessu, og því eigi smábátasjómenn ekki samleið með „aðilum sem sögðu veiðigjöldin bitna harðast á litlum og meðalstórum útgerðum og lemja svo á því þegar tillaga að breytingu er komin á blað.“

Ósýnileg tengsl
Örn vék einnig að þeirri samþjöppun í útgerð sem hafi verið gríðarleg á undanförnum árum.

Hann vitnaði til ákvæðis í lögum um takmarkanir á samanlagðri hlutdeild fiskiskipa í eigu tengdra aðila.

„Fiskistofu hefur ekki tekist að sýna fram á að tengsl séu milli hjóna, né þegar sami aðili gegni stjórnarformensku eins fyrirtækis og er forstjóri annars að það leiði til að ákvæði um hámarkshlutdeild hafi verið brotin,“ sagði Örn.

„Ef hægja á á samþjöppun er einn liður í því að taka viðkomandi lagaákvæði til endurskoðunar. Kveða skýrt á um að tengsl.“

Örn dró upp lista Fiskistofu yfir bæði 100 kvótahæstu fyrirtækin í stóra kerfinu og 50 kvótahæstu í litla kerfinu, og fór þar yfir aflahlutdeild fimm efstu í helstu tegundum aflamarks og tíu efstu í helstu tegundum krókaaflamarks.

„Þegar jafn fáir sem raun ber vitni eru með megin þorra aflaheimilda er vart hægt að álykta annað en það séu orðin tóm þegar stjórnvöld lýsa áhyggjum sínum yfir samþjöppun veiðiheimilda,“ sagði Örn eftir þá yfirferð.

Tilraunir til sniðgöngu
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flutti einnig ávarp á fundinum og gerði meðal annars að umtalsefni veiðistjórn á grásleppu og makríl.

„Þegar alþingi samþykkti breytingar á makrílfrumvarpinu síðastliðið vor var það gert til að efla veiðar smábáta,“ sagði Kristján, eftir að hafa rifjað upp að veiði sumarsins hafi einungis orðið 36 prósent af þeim aflaheimildum sem raunverulega voru virkar. Hann sagði menn engu að síður hafa safnað að sér heimildum í engum takti við veiðarnar.

„Í lok vertíðar virðast hafa farið í gang tilraunir til að fénýta þessar aflaheimildir. Svo ekki sé minnst á þetta fræga Parísarhjól eða hringekjuna sem var ekki til annars fallin en að dæla krókaaflamarki yfir í aflamarkskerfið,“ sagði hann.

„Þær tilraunir til sniðgöngu sem hér hefur verið lýst grófu bersýnilega undan vilja þingsins og voru ekki í samræmi við lög.“

Hann sagðist telja fulla ástæðu til að fara yfir þessi mál og „gera það sem hægt er til að tryggja að tilraunir af þessu tagi heyri sögunni til.“

Frumvarp um kvótasetningu
Hvað grásleppuna varðar sagði Kristján frumvarp sitt um kvótasetningu grásleppunnar vera til meðferðar hjá þingflokkum stjórnarinnar.

Hann sagðist gera sér fullljóst að um þetta séu skiptar skoðanir meðal smábátaeigenda, enda varð sú niðurstaða síðar á fundinum að lýst var yfir andstöðu við kvótasetningu á grásleppu.

Engu að síður sagði hann óbreytt fyrirkomulag „einungis leiða bara til færri veiðidaga, minni hagkvæmni og versnandi kjara þeirra sem stunda þennan veiðiskap.“

Myndavélareftirliti hafnað
Í samþykktum aðalfundar LS 2019 er víða komið við.

Meðal annars krafðist fundurinn þess „að álagning aflagjalda miðist við verðlagsstofuverð hjá öllum útgerðarflokkum.“ Þá lagði fundurinn til að byggðakvóta verði úthlutað sem ívilnun við löndun.

Fundurinn mótmælti „fyrirhugðum áformum stjórnvalda um rýmkun á reglum um veiðar með dragnót í landhelgi Íslands“ og krafðist þess „að löndun á hvítlúðu sem meðafla við krókaveiðar verði leyfð, enda sé ekki um beina sókn að ræða.“

Þá skorar fundurinn á umhverfisráðherra að „beita sér fyrir því að gert verði umhverfismat á áhrifum veiðarfæra á sjávarbotn og lífríki sjávar.“

Ennfremur skorar fundurinn á stjórnvöld „að auka rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar, sérstaklega ef auka eigi nýtingu þara úr firðinum, og hvaða áhrif hún hafi á lífríki Breiðafjarðar og viðgang fiskiseiða.“

Fundurinn samþykkti einnig „að sækja um styrk hjá AVS til rannsókna á áhrifum handfæraveiða á hegðun hrygningarfisks“ og einnig „að sækja um styrk hjá AVS til að rannsaka hversu mikill hluti smáfisks drepst við sleppingar af handfærum.“

Þá krafðist fundurinn þess „að áhrif veiða á sæbjúgum á botndýr og botn verði rannsökuð hið fyrsta, telur fundurinn að áhrif veiðanna séu töluverð. Bent er á að þyngd sæbjúgnaplógs er að jafnaði eitt til tvö og hálft tonn.“

Þá mótmælti fundurinn „harðlega öllum hugmyndum um myndavélaeftirlit utan hafna. Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda vill að við strandveiðar sé nægjanlegt að sjálfvirkur eftirlitsbúnaður sé virkur þegar farið er frá landi og þegar komið er í land, eins og er við aðrar veiðar.“

Drónaeftirlit með smábátum „verði óheimilt nema með dómsúrskurði þar sem fyrir liggur rökstuddur grunur um alvarlegt brot.“