þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvótaskerðingin svarar til ársafla 100 vertíðarbáta

1. október 2009 kl. 16:27

„Útvegsmannafélag Vestfjarða lýsir áhyggjum sínum af afleiðingum mikils niðurskurðar í aflaheimildum bolfisktegunda á fiskveiðiárinu sem hófst þann 1. september sl.  Þar var heildaraflamark bolfisktegunda skorið niður um 62.000 tonn eða sem svarar til meðalársafla 100 vertíðarbáta.  Niðurskurður í grálúðu bitnar sérlega hart á Vestfirðingum.”

Svo segir í ályktun aðalfundar félagsins.  Útvegsmannafélag Vestfjarða lýsir áhyggjum sínum af því að enn skuli þorskkvóti vera skertur á sama tíma og sjómenn verði varir við vaxandi þorskgengd víða við landið.  Útvegsmannafélag Vestfjarða skorar á stjórnvöld að breyta aflareglu í þorski til fyrra horfs.

Jafnframt  skorar Útvegsmannafélag Vestfjarða á stjórnvöld að falla nú þegar frá hugmyndum um fyrningu aflaheimilda. Þessar hugmyndir, sem eru bein aðför að landsbyggðinni, hafa þegar valdið atvinnugreininni og tengdum þjónustugreinum fjárhagstjóni. Enginn fæst til að leggja fé í rekstur þar sem jafn mikil óvissa ríkir um starfsumhverfi og raun ber vitni hjá sjávarútvegsfyrirtækjum.

Sjá ályktunina í heild HÉR