sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landanir norskra þrefaldast

21. júlí 2018 kl. 07:00

Norsk fiskiskip við bryggju á Fáskrúðsfirði. MYND/ÓM

Norðmenn hafa landað nærri 97 þúsund tonnum af loðnu og kolmunna hér á landi þetta árið. Þetta er þrisvar sinnum meira en þeir lönduðu hér á síðasta ári.

„Það gefur auga leið að þetta hefur verið okkur mjög mikilvægt,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, en Loðnuvinnslan hefur tekið á móti 70 þúsund tonnum til vinnslu á þessu ári, þar af 45.600 tonnum frá erlendum skipum.

Norska Fiskeribladet skýrir frá því að enginn markaður fyrir útflutning norskra sjávarafurða hafi vaxið jafn mikið á árinu eins og sá íslenski. Hann hafi tvöfaldast. Þetta skýrist af því að Norðmenn flokka undir útflutning allan þann afla sem landað er erlendis til bræðslu.

Blaðið vísar þar í tölur frá norska Sjávarafurðaráðinu um útflutning sjávarafurða fyrri hluta ársins 2018.

„Vegna þess að loðnukvóta var útdeilt í Barentshafi í ár varð aðgangurinn að loðnu í mjöl og lýsi varð meiri en norska vinnslumóttakan réð við, og þess vegna urðu landanirnar á Íslandi fleiri,“ segir í Fiskeribladet.

„Landanir frá norskum skipum í útlöndum gera það að verkum að Ísland með sína 300 þúsund íbúa verður stærsti vaxtarmarkaður fyrir norskar sjávarafurðir þegar mælt er í magni,“ segir blaðið.

Samkvæmt tölum norska Sjávarafurðaráðsins fluttu Norðmenn 60.215 tonn af sjávarafurðum til Íslands á fyrri hluta ársins. Þetta er þrisvar sinnum meira magn en flutt var til Írlands, þess lands sem næst kemur hvað varðar magnvöxt, en þangað fóru 20.489 tonn samkvæmt útflutningstölum Sjávarafurðaráðsins.

Glaðningur fyrir vinnsluna
Þessar tölur segja reyndar aðeins til um þann hluta norskra landana sem Norðmenn skrá í sínum bókum sem útflutning, en það á við um allt sem fer í bræðslu.

Í Fiskeribladet kemur hins vegar fram að Norðmenn hafi á þessu ári landað hér á landi alls 53.231 tonni af loðnu, 10.054 tonnum af Barentshafsloðnu og 32.330 tonnum af kolmunna.

Samtals gera þetta nærri 97 þúsund tonn, en inni í þeirri tölu er einnig sá afli sem fer aðra vinnslu en bræðslu.

Á síðasta ári lönduðu Norðmenn hér 24.522 tonnum af loðnu og 10.644 tonnum af kolmunna, sem samtals eru rúm 35 þúsund tonn, þannig að magnið hefur hátt í þrefaldast milli ára.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hér á landi hafa landanir Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á uppsjávarfiski sveiflast töluvert eftir árum.

„Það gefur auga leið að þetta hefur verið okkur mjög mikilvægt,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Veðrið skiptir miklu
Loðnuvinnslan hefur á þessi ári tekið á móti 70 þúsund tonnum, þar af 45.600 tonnum frá útlendingum.

Af loðnu hefur fyrirtækið tekið á móti 30 þúsund tonnum, og þar af koma 19.600 tonn frá íslenskum skipum en 7.700 frá Norðmönnum og 8.700 frá Færeyingum. Þar á ofan hefur Loðnuvinnslan tekið á móti 10 þúsund tonnum af Barentshafsloðnu, eða öllu því magni sem hér á landi hefur verið landað af henni.

„Þetta hafa verið mjög ánægjuleg góð viðskipti undanfarin ár,“ segir Friðrik. „Þetta hjálpar okkur að nýta okkar fastafjármuni.“

Hann segir þó fleira búa að baki þessum tölum en að norskar vinnslustöðvar ráði ekki við að taka á móti aflanum.

„Það spilar nú ýmislegt annað inn í. Þegar verið er að veiða loðnu hér við land er þetta auðvitað spurning um samkeppnishæfni okkar gagnvart Noregi. Og það sem Norðmenn hafa líka á móti sér er veðrið. Ef veiðin er treg þá eru miklu meiri líkur á því að þetta komi til Íslands, og ef það er áta í farminum þá þýðir ekkert fyrir þá að fara með þetta til Noregs. Þá kemur þetta í bræðslu hingað. Og ef það er kolmunni þá er bara spurning hvað menn þurfa að sigla langt. Svo höfum við í mörg ár tekið hingað í hrognatöku loðnu úr Barentshafi. Þetta eru áralöng samskipti og viðskipti sem við höfum átt og hafa verið mjög ánægjuleg.“