þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landssamband línubeitningarbáta stofnað vegna óánægju með LS

8. október 2010 kl. 10:17

Sjö aðilar sem gera út línubeitningarbáta í krókaaflamarkskerfinu hafa sagt sig úr Landssambandi smábátaeigenda (LS) og stofnað eigin samtök til þess að vinna að hagsmunamálum þessa bátaflokks.

,,LS og forustumenn þess hafa alla tíð unnið gegn hagsmunum okkar og því eigum við ekkert erindi þar innan dyra,” segir Páll Jóhann Pálsson útgerðarmaður Daðeyjar GK frá Grindavík sem er formaður nýja félagsins í samtali við Fiskifréttir.

Sem ágreiningsmál nefnir hann frjálsar handfæraveiðar, stærðarhámörk smábáta, línuívilnunina og kvótaþakið.

Arthur Bogason formaður LS mótmælir því að landssambandið hafi unnið gegn hagsmunum smábáta með línubeitningarvélar. ,,Við höfum aldrei haft horn í síðu þeirra. Við skulum líka ekki gleyma því að þessir bátar eru með miklar veiðiheimildir sem eru tilkomnar vegna baráttu landssambandsins í gegnum tíðina,” segir Arthur.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.