laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ furðar sig á viðbrögðum Norðmanna vegna makrílkvóta Íslands

17. mars 2009 kl. 12:21

,,Réttur okkur til þessara veiða er óskoraður og það er ekki við okkur að sakast þótt við þurfum að setja veiðiheimildir einhliða. Ósk okkar um að fá að koma að stjórn veiða úr makrílstofninum í NA-Atlantshafi hefur ítrekað verið hafnað. Í því ljósi eru þetta óskiljanlegar kvartanir Norðmanna,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.

Friðrik segist undrast stóryrta gagnrýni kollega síns, Audun Maråk framkvæmdastjóra hjá Fiskebåtredernes Forbund, samtökum norskra útvegsmanna, á vefsíðu samtakanna í gær. Þar er haft eftir  Maråk að þessi framkoma Íslendinga sé „óábyrg, fáheyrð og óafsakanleg.“  Maråk hvetur önnur strandríki (Noreg, Færeyjar og Evrópusambandið) til að gera Íslendingum það ljóst að svona framkoma verði ekki liðin.

„Lengi vel var viðkvæðið að við ættum ekkert erindi að samningaborðinu um stjórn veiða úr makrílstofninum þar sem makríll veiddist ekki innan íslensku lögsögunnar. Við veiddum hins vegar tæp 36.500 tonn 2007 og um 112.000 tonn í fyrra. Þá ráku menn upp ramakvein og sökuðu okkur um óábyrgar veiðar úr stofni sem ekki átti að vera til í íslenskri lögsögu,“ segir Friðrik.