sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ: Hugmyndir um 4% hlut Íslands í makríl fráleitar

2. desember 2011 kl. 15:34

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Hlutur Íslendinga í heildarveiðinni hefur verið 16-17% undanfarin ár.

,,Hugmyndir um 4% hlut Íslands í makrílveiðum eru fráleitar og ekki í neinu samræmi við kröfur okkar um réttmæta hlutdeild úr makrílstofninum," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. Í yfirlýsingu hagsmunaaðila í sjávarútvegi í Noregi og ESB, sem birt er á vef norskra útvegsmanna, segir að þeir sætti sig við að Ísland fái í mesta lagi 4% heildaraflans í sinn hlut. Undanfarin ár hefur Ísland hlutur Íslands í heildarveiðinni verið 16-17%

Í frétt á vef LÍÚ segir að vaxandi makrílgengd inn í íslenska lögsögu hafi verið staðfest með veiðum og viðamiklum sameiginlegum rannsóknarverkefnum íslenskra, færeyskra og norskra vísindamanna. Þannig hafi um 1,1 milljón tonna mælst innan íslensku lögsögunnar í rannsóknarleiðangri sem farinn hafi verið í sumar. Það sé svipað magn og mælst hafi í sambærilegum leiðangri árið áður.

Friðrik segir dylgjur hagsmunaaðila í Noregi og ESB um ósjálfbærar veiðar Íslendinga ómaklegar - ekki síst þegar horft er til þess að þessir aðilar hafi fyrir síðustu vertíð tekið sér 90% þess magns sem Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til að heimilt yrði að veiða. Ekki hafi verið horft til hagsmuna annarra strandríkja við þá ákvörðun og hún því verið bein ávísun á ofveiði úr stofninum.
Boðaður hefur verið fundur í makríldeilu Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins í Clonakilty á Írlandi eftir helgina.