sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ: "Steinum kastað úr skosku glerhúsi"

11. nóvember 2008 kl. 10:16

LÍÚ svarar frétt BBC frá því í morgun

„Þessi frétt á vef BBC um ofveiði okkar á makríl er full af rangfærslum. Til að kóróna vitleysuna er vitnað er í talsmann skosku heimastjórnarinnar, sem kemur ekki einu sinni fram undir nafni í fréttinni. Þegar meintur talsmaður sakar Íslendinga um óábyrgar veiðar er verið að kasta steinum úr skosku glerhúsi,“ segir Sigurður Sverrisson, upplýsinga- og kynningarfulltrúi LÍÚ á vef samtakanna í kjölfar fréttar BBC þar sem Skosk yfirvöld saka Íslendinga um ofveiði á makríl.

Eins og fram kom í morgun er makrílveiðum Íslendinga lýst sem „hneyksli“ og að þeir hafi veitt fimmfalt leyfilegt magn í frétt BBC.

Fram kemur á vef LÍÚ að Sigurður segist ekki skilja á hverju sú staðhæfing byggir.

„Í heilan áratug hefur ósk Íslendinga um að fá að koma að samningum um skiptingu makrílkvótans í NA-Atlantshafi verið hafnað, nú síðast í London í fyrri viku. Við getum því ekki verið bundin af einhverjum samningum sem við komum hvergi nærri,“ segir Sigurður á vef samtakanna.

Sigurður segir að það sem komist næst sannleikanum í fréttinni séu tölur um makrílafla Íslendinga á árinu.

„Reyndar er aflinn 112 þúsund tonn sem veiðst hefur innan íslensku lögsögunnar. Við ráðum yfir henni enda ekki í Evrópusambandinu. Samkvæmt ákvæðum Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna höfum við óskoraðan rétt til þessara veiða.“

Stutt er síðan greint var frá því á vefsíðu LÍÚ að skýrsla, sem lögð var fram á skoska þinginu í haust, staðfesti að fyrir hvern þorsk sem Skotar kæmu með að landi væri öðrum hent í sjóinn.

„Ef Skotar vísa til þess sem ábyrgra veiða held ég að þeim væri hollt að líta í eigin barm,“ segir Sigurður á vef LÍÚ.