föstudagur, 30. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnubrestur skýrir samdrátt vöruútflutnings að hluta

8. nóvember 2019 kl. 09:30

Mynd/Landsbankinn

Hærra afurðaverð í erlendri mynt heldur uppi útflutningsverðmæti sjávarafurða.

Vöruútflutningur á fyrstu þremur fjórðungum ársins nam 434,1 milljörðum króna og dróst hann saman um 2,5 milljarða eða 0,6% á föstu gengi krónunnar. Meginástæðan fyrir samdrættinum liggur í minna útflutningsverðmæti áls og álafurða en einnig hafði loðnubrestur töluverð áhrif.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem fjallað er um utanríkisviðskipti.

Útflutningur loðnu nam 7,2 milljarði og dróst hann saman um 10,2 milljarða eða 59%. Í tonnum talið nam samdrátturinn 80%. Engar veiðar voru heimilar og því er um útflutning á birgðum frá fyrra ári að ræða.

Útflutningsverðmæti þorsks jókst um 6,3 milljarða en sama aukning var til staðar í makríl. Verðmætaaukning þorsks nam 7,9% milli ára og skýrist af bæði örlítilli magnaukningu en einnig hærra afurðaverði í erlendri mynt. Verðmætaaukning makríls nam 69% og skýrist fyrst og fremst af 56% aukningu í útfluttu magni í tonnum talið.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 192,5 milljörðum á fyrstu 9 mánuðum ársins borið saman við 192,2 milljarða á sama tíma í fyrra. Aukningin nemur því 0,2%. Það sem hefur haldið útflutningsverðmætinu uppi og vegið mjög sterklega á móti minna útflutningsverðmæti loðnu er hærra verð íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt.

Verðið var 8,2% hærra á fyrstu þremur fjórðungum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Verð á íslenskum sjávarafurðum í erlendri mynt hefur stigið nokkuð hratt á fyrstu þremur fjórðungum ársins og þarf að leita allt aftur til ársins 2015 til að finna meiri verðhækkun á fyrstu þremur fjórðungum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra.