föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnukvótanum úthlutað

1. nóvember 2012 kl. 15:47

Vilhelm Þorsteinsson EA með um 9% kvótans. Heildarkvótinn skertur um 5.800 tonn vegna sérúthlutana

Loðnuveiðar íslenskra skipa eru heimilaðar frá og með 1. nóvember samkvæmt nýrri reglugerð atvinnuvegaráðuneytisins. Upphafskvótinn er alls um 206 þúsund tonn en rúmum 200 þúsund tonnum hefur verið úthlutað á skip á grundvelli aflahlutdeildar. Skerðing vegna þátttöku í sérúthlutunum hverskonar er um 5.800 tonn (2,8% reglan).

Mestan loðnukvóta fær Vilhelm Þorsteinsson EA, 18.415 tonn eða um 9% af heildinni. Beitir NK og Börkur NK koma þar á eftir með um 16 þúsund tonn hvort skip.

Loðnuveiðar eru einnig heimilar í fiskveiðilandhelgi Grænlands og Jan Mayen. Íslensk skip mega veiða 35% af kvóta sínum í hvorri lögsögu samkvæmt nánari reglum.

Í reglugerð ráðuneytisins er tekið fram að stundi skip veiðar á loðnu vestan 18°V á tímabilinu 1. nóvember 2012 til og með 31. desember 2012 skulu Hafrannsóknastofnunin og Fiskistofa fylgjast náið með hlutfalli ungloðnu í aflanum. Skulu eftirlitsmenn vera um borð í skipum á meðan á veiðum stendur, að því marki sem stofnanirnar telja vera nauðsynlegt.

Sjá nánar á vef Fiskistofu www.fiskistofa.is