mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnukvóti Norðmanna í íslensku lögsögunni aukinn um 4.200 tonn

6. febrúar 2013 kl. 15:27

Norskt loðnuskip

Norsk skip voru að klára 34.500 tonna kvóta sem áður hafði verið gefinn út

 

Norsk stjórnvöld hafa gefið út 4.200 tonna viðbótarkvóta til norskra skipa sem veiða loðnu í íslensku lögsögunni. Er þetta sá hluti Norðmanna í 150 þúsund tonna aukningu á heildarloðnukvótanum sem þeim er heimilt að veiða hér við land.

Fyrir var loðnukvóti Norðmanna í íslensku lögsögunni um 34.500 tonn. Norsk skip hafa nú þegar veitt rúm 33 þúsund tonn. Búið var að stöðva siglingar norskra skipa til Íslands þar sem kvótinn var að klárast. Því banni hefur nú verið aflétt og norsk skip eru því væntanleg hingað til að veiða kvótann sem bæst hefur við.

Norsk stjórnvöld segja jafnframt að frekari frétta sé að vænta á föstudaginn frá Íslandi hvort heildarkvótinn í loðnu verði hugsanlega aukinn enn meir.

Norskum skipum er aðeins heimilt að stunda loðnuveiðar í efnahagslögsögu Íslands til 15. febrúar 2013 og norðan við 64°30´N.