sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuvertíðin hjá Norðmönnum í Barentshafi hefst 23. janúar

6. desember 2011 kl. 12:08

Loðna

Heildarkvóti Norðmanna er 221 þúsund tonn

Sjávarútvegsráðuneytið norska hefur ákveðið að loðnuveiðar í Barentshafi megi hefjast 23. janúar næstkomandi. Þá er gert ráð fyrir því að veiðistofninn hafi skilið sig frá ungloðnunni. Loðnukvóti Norðmanna í Barentshafi árið 2012 er 221 þúsund tonn, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Heildarloðnukvótinn í Barentshafi er 320 þúsund tonn og er það í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Norðmenn hafa fengið 30 þúsund tonn af loðnu frá Rússum í skiptum fyrir norsk-íslenska síld. Kvóti Norðmanna fór því í 221 þúsund tonn. Af því magni fara 5 þúsund tonn til rannsóknarveiða.

Upphaflegi norski kvótinn skiptist þannig að 72% ganga til nótabáta, 12% til togbáta og 16% til svokallaðra strandbáta. Önnur regla gildir um skiptikvótann en hann rennur til nóta- og trollbáta. Alls mega nótabátar veiða tæp 159 þúsund tonn af loðnu, trollbátar rúm 27 þúsund tonn og strandbátar 30 þúsund tonn.