þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lögðu að baki 11.000 kílómetra við rannsóknir

16. september 2018 kl. 07:00

Páll Valgeirsson tekur sjósýni úr sondu. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Árlegur makríltúr Hafrannsóknastofnunar er fjölþættur rannsóknaleiðangur.

Rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar - Árni Friðriksson – tók þátt í fjölþjóðlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum í sumar (IESSNS, International Ecosystem Summer Survey in the Nordic Seas). Eða árlegum makríltúr eins og hann er kallaður af starfsmönnum Hafró. Áður en Árni var bundinn að nýju höfðu 6.150 sjómílur verið lagðar að baki, sem eru rúmlega 11.000 kílómetrar.

Á þessari löngu leið höfðu verið dregnar á þurrt 34 tegundir fiska; 250 grásleppur höfðu verið merktar og 114 erfðasýnum verið safnað. Eins verið tekin 27 loðnulirfutog. Þá eru ótalin um 300 sjó- og átusýni.Þetta kemur fram á bloggsíðu leiðangursmanna þar sem hægt er að kynna sér stórt og smátt sem á daga þeirra dreif. Hér á eftir verður stuðst við þessi skrif þar sem frá mörgu mjög svo áhugaverðu er sagt.

Lagt var úr höfn í Reykjavík 2. júlí og leiðangrinum lauk réttum mánuði síðar.  Fjöldi rannsóknaverkefna mun njóta góðs af sýnasöfnun í leiðangrinum til viðbótar því að niðurstöður leiðangursins voru notaðar strax í haust við mat á útbreiðslu og stofnstærð makríls. Eitt þessara hliðarverkefna er að safna loðnulirfum, en mikil áhersla er lögð á að rannsaka þessa undirstöðutegund vistkerfisins við Íslandsstrendur.

Loðnulirfur kvarnaðar

Fæðuslóðir loðnunnar eru í norðurhöfum nálægt Grænlandi og gengur loðnan síðan suður til Íslands til hrygningarstöðva sinna. Hrygningin hefur lengst af verið mest við suðurströndina en hefur aukist á svæðum meðfram norðurströndinni undanfarið. Er t.d. talið að töluverður hluti hrygningarinnar í fyrra hafi verið fyrir norðan land.Til að kanna þessa hugsanlegu breytingu á hrygningarsvæðum var safnað lirfusýnum og fjöldi þeirra metinn. Lirfurnar eru kvarnaðar og í framhaldi af því eru kvarnirnar aldurslesnar.

„Kvarnir eru litlir kalksteinar sem tengjast jafnvægisskyni fisksins svipað og innra eyra hjá fólki. Kvarnirnar hafa vaxtarhringi, svipaðir og aldurshringir í trjám, sem hægt er að nota til að aldursgreina lirfurnar (í dögum). Með upplýsingum um sjávarstrauma er svo hægt að nota reklíkan til að staðsetja líklegt hrygningarsvæði lirfanna,“ segir í blogginu.

Hrognkelsamerkingar

Hrognkelsi koma inn til hrygningar við Íslandsstrendur á tímabilinu mars til september. Grásleppan hrygnir í hreiður sem rauðmaginn gætir þangað til eggin klekjast út. Lirfurnar leita skjóls innan um þang í fjöruborðinu og éta þar smákrabbadýr. Með tímanum halda þau á fæðuslóð langt út á haf þar sem þau vaxa þangað til þau snúa fullorðin aftur til hrygningar.

„Út frá upplýsingunum sem við höfum aflað í þessum leiðangri vitum við að hrognkelsin eru dreifð á öllu hafsvæðinu sem farið er yfir í túrnum, frá ströndum Norður-Noregs, að Íslandi og allt suður með austurströnd Grænlands. Hins vegar vitum við ekki hversu lengi þau dveljast á úthafinu né heldur hve hratt þau vaxa. Ennfremur er ekki ljóst hvert hrognkelsi í miðju Norður-Atlantshafinu ganga til hrygningar, munu þau hrygna við Ísland eða við Noregsstrendur?“ spyrja leiðangursmenn sig.

Til að svara þessum spurningum merktu vísindamennirnir 91 hrognkelsi á lengdarbilinu 13 til 42 sentímetrar og slepptu þeim skammt frá veiðistað. Á merkjaplötunum eru auðkennisnúmer ásamt upplýsingum hvert skal snúa sér ef merki kemur fram.

Ekki ný fisktegund

Í leiðangri síðasta árs veiddist fiskur á sunnanverðum Reykjaneshrygg sem vísindamennirnir gátu ekki greint til tegundar – og ekki var hann að finna í þeim bókum sem skrifaðar hafa verið um tegundir fiska í hafinu við Ísland. Eins og gefur að skilja stóðu vonir til að hér væri komin ný tegund – sem auðvitað væri meiriháttar uppgötvun. Á blogginu segir frá því að sá draumur rættist ekki.

Jónbjörn Pálsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, lagðist yfir málið og komst að því að hér var á ferðinni ungviði af tegundinni rauða sævesla (gaidropsarus argentatus). Segir í Íslenskir fiskar – bók Jónbjörns og Gunnars Jónssonar, að heimkynnin eru í Norður-Atlantshafi við Vestur- og Austur-Grænland, Ísland, Færeyjar og Noreg. Rauða sævesla fannst fyrst á Íslandsmiðum á 215 metra dýpi í Húnaflóa árið 1890. Síðan hefur hún veiðst oft á allmiklu dýpi, einkum í kalda sjónum norðvestan-, norðan-, norðaustan- og austanlands en hún veiðist einnig undan Suðvestur- og Suðurlandi og virðist ekki vera mjög sjaldgæf. Um hrygningu hér við land er ekkert vitað.

Hins vegar var aflinn áhugaverð blanda af smágerðum uppsjávarfiskategundum sem íslensk fiskskip veiða ekki – og ekki aðeins fyrir hina „nýju tegund.“ Eru nefndar tegundir eins og litla geirsíli, laugasíld, íslaxsíld, smokkfiskur og fleira.

eDNA

„Við vitum öll hvernig erfðasýni af vettvangi glæps eru notuð til að sanna sekt þess sem glæpinn framdi. Allar lífverur losa sífellt húðfrumur og hár í umhverfið. Því er hægt að nota erfðasýni til að rannsaka fleira en glæpi eins og útbreiðslu og magn lífvera.“

Svona hefst ein færsla vísindamannanna um borð í Árna Friðrikssyni, og er til vitnis um nýja og afar spennandi aðferðafræði við hafrannsóknir. Þar segir frá því að fyrir um áratug var byrjað að mæla erfðaefni  í umhverfinu til að rannsaka úrbreiðslu lífvera í ferskvatni þegar vísindamenn síuðu vatn úr tjörnum í Frakklandi til að mæla útbreiðslu froska. Fyrsta rannsóknin í sjó var birt 2012 þegar umhverfiserfðaefni var notað til að greina 15 fiskitegundir og 4 fuglategundir á grunnsævi við Elisinore í Danmörku. Síðan þá hefur verið hröð þróun í notkun umhverfiserfðaefnis við rannsóknir á lífríkinu í sjónum. Umhverfiserfðaefni hefur meðal annars verið notað til að rannsaka árstíðarbundna göngur fiska í Hudson ánni í New York, rannsaka tegundasamsetningu fiska á landgrunnsbrúninni suðvestur af Grænlandi, til að greina lífríkissamsetningu í þaraskógum í Monterey-flóa í Bandaríkjunum og til að meta stofnstærð hákarlastofna í suðvestur Kyrrahafi.

Söfnun umhverfiserfðaefnis var í fyrsta skipti í þessum leiðangri, og er tilraunaverkefni þar sem greina á tegundasamsetningu uppsjávarlífríkis í hafinu umhverfis Ísland. Verkefninu er stjórnað af Dr. Christophe Pampoulie, erfðafræðingi á Hafrannsóknastofnun, eins og Fiskifréttir hafa fjallað um undanfarið.

Ár liðið frá björgun

Nú er rúmt ár liðið frá því að áhöfnin á Árna Friðrikssyni bjargaði þremur mönnum úr sjávarháska af skútunni Valiant suðaustur af Reykjaneshrygg. Þessa er minnst á bloggi leiðangursins en fyrir björgunarafrekið fékk skipstjórinn Ingvi Friðriksson viðurkenninguna Certificate of Valor og áhöfnin viðurkenninguna Certificate of Merit frá bandarísku strandgæslunni. Í þakklætisskyni gaf  Wesley Jones, skipstjóri skútunnar, veglega gjöf sem nýtt var til kaupa á talstöðvarbúnaði fyrir Slysavarnaskóla sjómanna.