laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuveiðar Norðmanna mega hefjast 20. janúar

20. desember 2010 kl. 13:05

Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur tilkynnt að loðnuveiðar norskra skipa í Barentshafi megi hefjast 20. janúar næstkomandi. Loðnukvóti Norðmanna verður 235.000 tonn, þar af fær hringnótaflotinn 200.000 tonn í sinn hlut en togaraflotinn 35.000 tonn.

Loðnuveiðarnar má ekki stunda innan við fjórar mílur frá grunnlínu nema stjórnvöld meti það svo að slíkt sé verjandi. Starfsmenn norsku fiskistofunnar í Troms-fylki geta veitt undanþágur til veiða á lokuðum svæðum gegn því að um borð í skipunum séu eftirlitsmenn sem fylgist með meðafla.

Sem kunnugt er hefur þegar verið gefinn út 200.000 tonna loðnukvóti við Ísland, þar af koma 139.000 tonn í hlut Íslendinga, en 61.000 tonn ganga til útlendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga.