laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LS ræðir ýsuvandræðin við ráðherra

22. janúar 2014 kl. 09:23

Ýsa

Trillukarlar í basli við að ná ýsuhlutfallinu niður fyrir 50% á miðunum.

Fulltrúar Landssambands smábátaeigenda (LS) munu í dag eiga fund með sjávarútvegsráðherra þar sem honum verður gerð grein fyrir erfiðleikum í útgerð krókaaflamarksbáta við þorskveiðar vegna skorts á ýsukvota. 

Þetta kemur fram á vef LS. Þar er ennfremur vísað til viðtals í Brimfaxa, félagsblaði LS, við Höskuld Björnsson verkfræðing á veiðiráðgjafasviði Hafrannsóknastofnunar, þar sem hann hafi sagt að samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunar hafi alltaf veiðist mikið af ýsu á grunnslóð á haustin og því kæmi það í raun ekki á óvart að mikið af henni veiðist nú á grunnslóð.

Á vefsíðu LS er bent á að krókaaflamarksbátar séu komnir í hreinustu vandræði vegna mikillar ýsu á veiðislóð þeirra. Síðan segir: 

„Það er sammerkt þeim að allir reyna að forðast ýsu við þorskveiðar.  Þó það sé gert eiga margir í mesta basli með að ná hlutfalli ýsunnar niður fyrir 50%. Viðmælendur LS segja ýsu nú veiðast allt árið og það sem af er þessu fiskveiðiári hafi ívið meira verið af henni en í fyrra.  „Það væru skrýtin vísindi að þegar vísindamenn segja okkur sjóinn fullan af þorski en lítið af ýsu, þá sé þetta öfugt farið á miðunum“, eins og einn félagsmaður orðaði það,“ segir að lokum á vefsíðu LS.