sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mælist 800.000 tonnum stærri

8. júlí 2018 kl. 07:00

Árni Friðriksson vann að rannsókninni ásamt alþjóðlegum flota rannsóknaskipa. Mynd/HAG

Stofn norsk-íslenskrar síldar stöðugur á milli ára

Niðurstöður alþjóðlegs uppsjávarleiðangurs í maí sýnir að stofn fullorðinnar norsk-íslenskrar síldar mælist fimm milljón tonn í samanburði við 4,2 milljón tonn árið 2017. Um er að ræða um 20% hækkun. Heilt yfir sýna niðurstöður síðustu ára nokkuð stöðuga stofnstærð.

Leiðangurinn náði til Noregshafs og aðliggjandi hafsvæða. Leiðangurinn er skipulagður innan vinnuhóps Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Þátttakendur í leiðangrinum auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar, voru rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Rússlandi. 

Mest við Ísland og Færeyjar

Útbreiðsla norsk-íslenskrar síldar í maí þetta árið var vestlægari en áður hefur sést síðan leiðangurinn byrjaði 1995. Stærsta hluta stofnsins var að finna innan íslensku og færeysku lögsaganna, en einnig var síld í og við alþjóða hafsvæðið milli Jan Mayen og Noregs. Aukningin nú var að stærstu leyti tilkomin vegna hærra mats á 2013 árganginum. Nú við fimm ára aldur lítur hann út fyrir að vera yfir meðalstærð en þó aðeins hálfdrættingur á við stóra árganginn frá 2004.

Þessar niðurstöður verða m.a. notaðar á fundi ICES í lok ágúst þar sem vinna við stofnstærðarmat og ráðgjöf uppsjávarfiskistofna fer fram.