sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílaflinn kominn í 114 þúsund tonn

11. september 2009 kl. 12:00

Íslensk skip hafa nú landað rétt rúmum 114 þúsund tonnum af makríl. Dregið hefur úr makríl sem meðafla við veiðar á norsk-íslenskri síld en fari fram sem horfir má gera ráð fyrir því að heildaraflinn verði 116-118 þúsund tonn.

Fyrr á þessu ári var gefin út reglugerð þar sem íslenskum skipum var heimilað að veiða 112 þúsund tonn af makríl, þar af 20 þúsund tonn að hámarki á alþjóðlegu svæði. Til viðbótar þessu máttu íslensk skip veiða 3 þúsund tonn af makríl innan færeysku lögsögunnar samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Færeyja.

Í júlí þegar veiðst höfðu um 90 þúsund tonn af makríl voru veiðileyfi til beinna veiða á makríl innkölluð en heimilað að veiða 10% af makríl sem meðafla við veiðar á norsk-íslenskri síld. Þessu hlutfalli var fljótlega breytt í 12% og á dögunum var það hækkað í 20%.

Íslendingar hafa veitt makrílkvóta sinn í færeyskri lögsögu að fullu og að honum meðtöldum hafa íslensk skip nú landað 114.200 tonnum af makríl samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Megnið af makrílnum hefur verið veitt innan íslenskrar lögsögu. Á síðustu 6 dögum var landað um 1.400 tonnum af makríl og 5.850 tonnum af síld. Heldur hefur dregið úr makríl í síldaraflanum allra síðustu daga en gera má ráð fyrir að makrílafli íslenskra skipa í heild nái 116-118 þúsund tonnum.