þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílkvóta úthlutað

9. ágúst 2019 kl. 13:58

HB Grandi, Ísfélag Vestmannaeyja og Samherji eru með hæstu aflahlutdeild í makríl þetta árið. Samtals fá 11 stærstu útgerðirnar 87,9 prósent.

Fiskistofa hefur gefið út endanlega aflahlutdeild í makríl, eftir að hafa tekið tillit til athugasemda sem bárust við bráðabirgðaúthlutun í lok júní.

Samkvæmt reglugerð um veiðar á makríl er 127.307 tonnum af makríl úthlutað til skipa með hlutdeildir þetta árið. Þar af er 124.450 tonnum úthlutað til skipa í A-flokki, sem eru skip með veiðireynslu í öðrum veiðarfærum en línu og handfærum. Til skipa í B-flokki, sem eru með veiðireynslu í línu og handfærum, fara 2.857 tonn. 

Í A-flokknum eru 119 skip sem fá samtals úthlutað 97,76 prósentum heildarúthlutunarinnar, en í B-flokknum eru 480 bátar með samtals 2,24 prósent hlutdeild.

Viðbótarpottur upp á 4.000 tonn er síðan eyrnamerktur smábátum.

Stærsta hlutdeildin fer til HB Granda, eða 14,06 prósent sem gefur 17.894 tonn, næst kemur Ísfélag Vestmannaeyja með 12,32 prósent hlutdeild eða 15.685 tonn og síðan er Samherji með 11,49 prósent eða 14.622 tonn. Heildarhlutdeild 11 stærstu útgerðanna er 87,9 prósent.

Landssamband smábátaeigenda greinir frá því á vef sínum að um eitt hundrað bátar séu útbúnir til færaveiða á makríl „og því ljóst að viðbótarkvóti upp á 4.000 tonn á eftir að koma sér vel fyrir aðila sem hafa hug á að hefja veiðar.“

Jafnframt vekur LS athygli á því að „þeir bátar sem enga úthlutun hafa fengið þurfa að flytja til sín aflamark til að geta hafið veiðar og öðlast þá samtímis rétt til að fá úthlutað viðbótakvóta.“