miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makríllinn veldur heilabrotum

Guðsteinn Bjarnason
3. september 2020 kl. 11:00

Þetta árið mældist mest af makríl á rauðu svæðunum norðarlega í Noregshafi. MYND/Hafrannsóknastofnun

Þetta árið tók makríllinn ekki beygju til vesturs heldur hélt nánast allur norður á bóginn að lokinni hrygningu í vor. Engar fullnægjandi skýringar enn í sjónmáli.

Ein helsta niðurstaða sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana í sumar var að lífmassi makríls í Norður-Atlantshafi mældist meira en nokkru sinni, en á hafsvæðinu við Ísland mældist lífmassinn 72 prósent minni en árið 2019. Það er minna en mælst hefur á íslensku hafsvæði í meira en áratug.

Megnið af makrílnum hélt til norðurs að lokinni hrygningu í vor í staðinn fyrir að beygja til vesturs suður fyrir Ísland í áttina að Grænlandi, eins og drjúgur hluti stofnsins hefur gert undanfarinn áratug og ríflega það. Strax árið 2018 byrjaði makrílinn að ganga í auknum mæli í norður í Noregshafs og minna magn gekk í vestur til Íslands og Grænlands. Þessi þróun hefur haldið áfram síðan þá.

„Þetta kom okkur á óvart,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir leiðangursstjóri. Skýringar á þessari skyndilegu breytingu hafa enn ekki fengist. Þó átumagn hafi lækkað um tæp 15% og yfirborðssjávarhiti sé ívið lægri þá nægir það eitt og sér ekki til að skýra þetta.

Litlar umhverfisbreytingar

„Það hafa ekki orðið neinar dramatískar umhverfisbreytingar. Það er ekki eins og það sé allt í einu engin áta. Meðaltalið hefur minnkað en það er samt fullt af átu, og langtímahitastigið er bara svipað. Við fáum meðaltal úr gervihnöttum fyrir júlímánuð og svo mælum við líka hitastigið í leiðangrinum. Þessar punktmælingar sem við gerum sýna að það er aðeins kaldara í ár en í fyrra, en það er samt alveg nógu heitt fyrir makrílinn. Það eru engin augljóst merki um að hitastigs- og átumagnsbreytingar séu að valda þessu.“

Anna Heiða segir að vísindamenn hafi strax í fyrra byrjað að velta fyrir sér skýringum á því að makríllinn hafi í auknum mæli haldið í fæðugöngu til norðurs.

„Það eru ýmsar kenningar í gangi, meðal annars um hluti sem hafa verið að gerast fyrir suðaustan Ísland. Hrygnir hann kannski á öðrum stað? Hann byrjar á því að hrygna og fer svo í fæðugönguna, og þá er spurningin hvort hrygningin sé kannski að færast norðar inn í Noregshaf að hluta til, þannig að þegar hann er búinn að éta þá haldi hann einfaldlega áfram norður eftir? Það hafa líka verið pælingar með hitastig fyrir austan Ísland á vorin. Hvort einhverjar breytingar hafi í hafinu þar, einhverjir kaldir straumar meira en hefur verið, en þetta eru bara pælingar sem ekki er búið að setja á blað og ekki búið að gera neitt með.“

Skýringa leitað

Fyrirhugað er að 40 vísindamenn alls staðar að úr Evrópu hittist á fjarfundi undir lok mánaðarins til að skipuleggja fyrstu skrefin til að svara þessari spurningu. Upphaflega stóð til að halda þennan fund síðasta vor, en því var frestað vegna covid-faraldursins. Veiran skæða er enn á kreiki og því geta vísindamennirnir ekki hist nema á fjarfundi.

„Við ætlum að hittast og leggjast í hugmyndavinnu um hvað gæti verið að valda þessu, koma með tilgátur og svo ætlum við að bara að byrja að vinna.  Velja svo tilgáturnar sem eru líklegastar og fara síðan að safna þeim gögnum sem þarf til að prófa tilgáturnar.“

Hún segir makrílstofninn það víðförlan og erfitt að ná utan um hann og að allir séu búnir að átta sig á því að engin ein stofnun geti leyst ráðgátuna um hvað hafi áhrif á far makrílsins. Fjölþjóðasamvinnu þurfi til og eins þurfi vísindamenn og útvegsmenn að vinna saman.

„Þetta verður vonandi byrjunin en það er mikill áhugi og mikill samvinnuvilji. Þarna er saman komið vísindafólk með mismunandi bakgrunn og frá mismunandi þjóðum Allir eru að reyna að stuðla að því að til verði ný þekking og nýr skilningur.“

Í niðurstöðum leiðangursins kemur fram að austan, sunnan og vestan Íslands, sem og í Irmingerhafinu við Austur Grænland hafi hitastig í yfirborðslögum sjávar verið „ívið lægra nú en á sama tíma í fyrra, en kringum meðaltal síðustu 20 ára,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Þá minnkaði vísitala um magn dýrasvifs á hafsvæðinu við Ísland „um 15% samanborðið við fyrir ár og 45% minnkun var við Grænland meðan magnið var álíka í Noregshafi.“

Nóg af átu

Sem fyrr segir telur Anna ljóst að minni áta ein og sér skýri engan veginn brotthvarf makrílsins.

„Nei, það var áta fyrir makrílinn á vestursvæðinu í sumar. Bæði sýna átumælingar okkar það í vor og sumar. Einnig mældist fullt af norskri-íslenskri vorgotssíld sem er að éta á Íslandsmiðum í sumar, og hún er feit og pattaraleg. Ef það væri allt í einu engin áta í sjónum við Ísland þetta sumar samanborið við fyrri ár þá ætti síldin að vera horuð. Þær rannsóknir sem við höfum gert þær sýna að sveiflur í magn átu eitt og sér hefur lítil áhrif á þéttleika makríls.“

Á árunum 2010 til 2019 hefur lífmassinn í íslenskri lögsögu mælst á bilinu 1,1 milljón tonn til 3,9 milljón tonn, eða á bilinu 17 og allt upp í 37 prósent af mældum heildarlífmassa makríls í Norður-Atlantshafi. Nú í sumar var massinn kominn niður í 545 þúsund tonn og hlutfallið komið niður í 4,47 prósent.