föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílstofninn er stórlega vanmetinn

1. október 2012 kl. 09:47

Makríll í veiðarfæri norsks rannsóknaskips.

Ástæðan er umfangsmikil ólögleg löndun og brottkast.

Vísindamenn frá Evrópusambandinu og Noregi hafa bent á að löndun á makríl framhjá vigt og brottkast valdi stórri skekkju í mati á stærð stofnsins. 

Alþjóðahafrannsóknaráðið ICES hefur birt mat sitt á stærð makrílstofnsins ásamt ráðgjöf um leyfilegan heildarafla fyrir árið 2013. Hrygningarstofninn er metinn tæp 2,7 milljón tonn, rúmlega 300 þúsund tonnum minni en á síðasta ári og ráðlagður afli er um 15% minni. 

Á vef LÍÚ er minnt á að um langt skeið hafi aðildarríki ESB og Noregur veitt mikið magn af makríl sem landað hafi verið framhjá vigt. ,,Þetta var opinbert leyndarmál sem viðkomandi stjórnvöld létu viðgangast. Þó að Skotar og Írar hafi nýlega verið dæmdir í háar fjársektir fyrir athæfið þá liggur umfang brotanna ekki nákvæmlega fyrir,“ segir á vefnum.

Árleg ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins um hámarksafla úr markílstofninum byggir á aflareglu sem Noregur, ESB og Færeyjar gerðu samkomulag um fyrir fjórum árum. Reglan miðast við að veiða að hámarki tiltekið hlutfall af metinni stofnstærð. 

Á vef LÍÚ segir ennfremur:

,,Árið 2010 birtist vísindagrein sem véfengir matið á stofnstærð makríls út frá mælingum og tölfræðigreiningum (Simmonds o.fl., ICES Journal af Marine Science 67:1138-1153 (2010)). Höfundar greinarinnar eru vísindamenn frá ríkjum ESB og Noregi. Þeir vísa til þess sem vitað er um umfangsmikla ólöglega löndun makrílafla framhjá vigt úr skipum ESB auk brottkasts og þess sem sleppt úr veiðarfærum. Megin niðurstaða þeirra er sú, að til að ná samræmi milli mats á afföllum út frá mismunandi gögnum þyrftu uppgefinn afli og brottkast að vera 1,7 til 3,6 sinnum meiri en skráður afli. Til þess að stofnstærðarmatið geti verið á réttu róli þurfa aflatölur að einnig vera það. Það er ekki einfalt mál að segja til um hverju kunni að skeika þegar makríllinn á í hlut þar sem það liggur í eðli glæpamála að þau verða ekki alltaf upplýst að fullu. Ljóst má hins vegar telja að makrílstofninn umtalsvert stærri en talið hefur verið, jafnvel hátt í tvöfalt stærri.“ 

LÍÚ telur mikilvægt að lagt verði í umfangsmikla og vandaða vinnu við endurmat á stærð makrílstofnsins án tafar þannig að ákvarðanir um heildarafla og samningar um skiptingu afla milli ríkja geti byggt á réttum upplýsingum. Íslensk stjórnvöld og íslenskir vísindamenn eru hvattir til að taka frumkvæðið í þessu mikilvæga hagsmunamáli enda hafa stjórnvöld í ESB og Noregi ekki sinnt því.