mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílveiðin fer afskaplega hægt af stað

2. ágúst 2018 kl. 15:00

Sigurður Freyr Sigurðsson skipstjóri á Votabergi KE. MYND/HAG

Nær helmingi minni afli en í fyrra


„Sigurður er sjómaður, sannur Vesturbæingur...“ söng Bubbi í hringihljóm Sigurðar Freys Sigurðssonar sjómanns og skipstjóra á Votabergi KE þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn. Votaberg er 13 tonna krókaaflamarksbátur sem gerður er út á makrílveiðar þessa dagana. Þeir voru tveir bátarnir í Keflavík og Sandgerði sem fyrstir hófu makrílveiðar og hafa verið að undanfarna rúma viku. Þetta eru Votaberg og Fjóla GK, og eftirtekjan hefur verið rýr svo vægt sé til orða tekið.

gugu@fiskifrettir.is

„Það er óhætt að segja að það sé rólegt yfir þessu,“ segir Sigurður sem er á sinni fyrstu makrílvertíð. „Það er ekki mikið að sjá og það sem sést er styggur makríll sem er erfiður viðureignar. Það er eitthvað allt annað uppi á teningnum núna en í fyrra. Við byrjuðum núna fyrir rúmri viku. Fjólan byrjaði um svipað leyti. Allan þennan tíma höfum við á Votabergi ekki landað nema um 500 kílóum, það er nú ekki meira en það.“

Allt önnur staða en í fyrra

Sömu sögu er að segja af öðrum bátum á þessum slóðum; veiðin er dræm og menn að koma með að hámarki um 300 kíló í land eftir daginn. Á þessari rúmu viku hefur Fjóla til að mynda ekki fengið nema um eitt tonn. Um svipað leyti í fyrra var staðan allt önnur. Þá var landburður af makríl. Sjórinn var svartur af fiski og bátarnir mokuðu upp innan hafnarinnar í Keflavík og víðar.

Um mánaðamótin júlí-ágúst í fyrra höfðu borist á land tæp 30 þúsund tonn af makríl og algengt að smábátarnir hefðu fengið frá 25-40 tonn. Nú er öldin önnur og virðist sem makrílveiðar færist aftar á dagatalið með hverju ári sem líður. Þannig höfðu ekki borist á land nema rúm 16 þúsund tonn núna um mánaðamótin eða næstum helmingi minni afli en fyrir ári. Smábátarnir eru ekki með nema frá einu og upp í fimm tonn flestir.

Stór en magur makríll

„Við erum bara að bíða eftir að þetta fari í gang. Sjórinn er að hlýna og kominn í um tíu gráður núna. Það virðist allt vera seinna í gang en þó heyrir maður fréttir af bátum fyrir vestan sem hafa verið að veiða. Þannig að við bara bíðum og ef það fer ekkert að gerast í þessum málum förum við bara af stað að leita,“ segir Sigurður sem hefur að mestu haldið sig inni í Keflavíkinni og við Helguvík. Þarna var allt vaðandi í makríl á sama tíma í fyrra.

Fimm DNG rúllur eru um borð í Votaberginu og ágætlega gengið að halda veiðarfærunum í lagi. Makríllinn sem þó hefur fengist er stór en heldur grannur, að sögn Sigurðar.

„Þetta hafa verið hálfgerðar fýluferðir hjá okkur en engu að síður er gaman að koma sér inn í þessar veiðar. En á móti kemur að tekjurnar eru lágar og við verðum að fara að veiða eitthvað,“ segir Sigurður sem hafði áður verið á Erlingi KE eina vertíð.