föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Marka gullkarfanum sérstöðu

Guðsteinn Bjarnason
27. nóvember 2017 kl. 07:00

Óskar Sigmundsson, eigandi Maróss í Þýskalandi. MYND/MARÓS

Íslenska fyrirtækið Marós gerir sex mánaða tilraun með markaðssetningu í Þýskalandi.

Óskar Sigmundsson segir Íslendinga hafa allt sem þarf til að standast kröfur neytenda og kaupenda um vottanir, hreinleika, rekjanleika og gæði

Íslenska fyrirtækið Marós GmbH, sem er með höfuðstöðvar í Cuxhaven í Þýskalandi, gerir um þessar mundir sex mánaða tilraun með að markaðssetja gullkarfa frá Íslandi á markaði í Þýskalandi. Óskar Sigmundsson, eigandi Marós, skýrði frá þessu á sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu í lok síðustu viku.

Gullkarfinn hefur að sögn Óskars átt undir högg að sækja á þýska markaðnum. Og almennt hefur mikilvægi karfamarkaðarins þar minnkað. Óskar segir margar ástæður fyrir því.

„Aðalsamkeppnisafurð okkar þar er Kyrrahafskarfi,“ sagði Óskar í erindi sínu á ráðstefnunni, „og hann fer ásamt ýmsum öðrum botnfisktegundum til Kína, er uppþýddur þar og unninn í flök, beinlaus eins og neytandinn vill hafa hann, með eða án aukaefna og kemur síðan til baka til Þýskalands sem Kyrrahafskarfi.“

Þessi karfi er síðan seldur til dreifingaraðila í Þýskalandi sem Kyrrahafskarfi, veitingahús kaupa hann sem Kyrrahafskarfa, en svo þegar neytandinn sest inn á veitingastað og skoðar matseðil þá stendur þar aðeins karfi, án frekari útskýringa. Neytandinn hafi því engan möguleika á því að velja hvers konar karfa hann fær á diskinn.

Lítið þarf til
Óskar segir að Íslendingar hafi góð tækifæri til að bregðast við þessari þróun með betri markaðssetningu og kynningu á íslenskum afurðum, sérstöðu þeirra og gæðum.

„Bara með því að kynna karfann okkar sem gullkarfa frá Íslandi getum við skapað honum þá sérstöðu sem þarf. Og það er svo litið sem þarf til, bara þessi nafnbreyting og þá getur neytandinn valið hvort hann vill gullkarfa frá Íslandi eða annan karfa.“

Með þetta í huga hefur Marós ráðist í umfangsmikla markaðstilraun með gullkarfa frá Íslandi sem er þá merktur sérstaklega sem slíkur.

„Niðurstaðan af þeirri vinnu er að frá síðasta mánuði má finna gullkarfa frá Íslandi hjá einum stærsta smásöluaðila í Þýskalandi, þar sem gullkarfaflökin eru boðin í öllum verslunum þeirra í sex mismunandi héruðum,“ segir Óskar.

Hann segist telja að þetta sé í fyrsta sinn sem frystur íslenskur gullkarfi er seldur sérstaklega merktur sem gullkarfi frá Íslandi í þýskri smásölu.

Bíða undirtekta
Óskar og samstarfsfólk hans bíða þess nú spennt hverjar undirtektirnar verða. Hann segist jafnframt sannfærður um að vel megi fylgja þessu eftir með sambærilegri markaðssetningu íslenskra sjávarafurða inn á þýska markaðinn.

„Það tók íslenskt skyr ekki langan tíma að komast í nánast hvern súpermarkað í Þýskalandi og af hverju ætti íslenskur fiskur ekki að eiga þar jafngreiða leið?“

Óskar segir Íslendinga hafa allt sem þarf til að uppfylla kröfur þýskra neytenda og kaupenda um vottanir, hreinleika, rekjanleika og gæði.

Hann segir jafnframt engan vafa leika á því að allar þær vottanir, sem nú eru gerðar kröfur um á mörkuðunum, hjálpi íslenskum fyrirtækjum mikið við markaðssetningu í Þýskalandi og víðar.

„Við erum ekki lengur að streitast á móti og synda á móti straumnum,“ segir hann, en bendir þó á að framkvæmdin við vottunarstarfið sé vissulega ekki gallalaus.

Álag vegna vottunar
„Regluverkið er orðið geysilega mikið og ég hef rætt við marga aðila sem reka vinnslur og markaðsfyrirtæki í Þýskalandi sem eru orðnir töluvert þreyttir á stöðugt vaxandi kröfum,“ segir Óskar. „Menn eru sífellt í vottunum, stöðugt með starfsfólk bundið og verða þá að vera með tvöfalt lið því verslunarkeðjurnar koma síðan í ofanálag með sitt eigið fólk og sínar eigin úttektir. Og þeir koma ómeldaðir og geta komið hvenær sem er. Það fer geysilegur tími í allt utanumhald um slíka vinnu.“

Hann segir menn spyrja sig hvort þetta sé allt saman af hinu góða, enda hafi menn misjafna reynslu af þessari vinnu.

„Af hverju er til dæmis stöðugt verið að spyrja framleiðendur í Evrópu um barnaþrælkun? Er aðalatriðið hvort grasið á lóðinni fyrir utan verksmiðjuna sé slegið? Átján ára og yngri mega ekki standa óvarin við færibönd en síðan er þeim treystandi til að vera á ýmis konar farartækjum í umferðinni. Og af hverju mega vörubílstjórar ekki ákveða sjálfir hvar þeir verja frítímanum? Af hverju þurfa þeir að fara til heimalands eftir 45 klukkustunda keyrslu. Þetta eru nýjar reglur sem voru að taka gildi, en það getur verið svolítið erfitt fyrir Rúmena og marga frá Austur-Evrópu sem eru að halda flutningum gangandi.“

Svona mætti lengi telja, segir Óskar. Hann segir kröfurnar og regluverkið í kringum hina ýmsu staðla stöðugt verða umfangsmeira.

„Svo er fróðlegt að heyra að það er ekki verið að skoða vöruna sjálfa eða hráefnið, eins og einn viðmælandi orðaði það: Ég get verið með skemmt hráefni í vinnslu en það skiptir sér enginn af því, ef það er stafsetningarvilla á skjali þá er það orðið að aðalmáli.“

Þrátt fyrir þetta umstang allt segir Óskar engan vafa leika á því að nú orðið séu allir sammála því að allt þetta eftirlit sé að mestu nauðsynlegt, og vottanirnar þar með.

„Við breytum ekki reglunum og verðum einfaldlega að haga okkur eftir þeim. Ef við spilum ekki með erum við einfaldlega úti.“