sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Marsaflinn í ár 21% verðmætari en í fyrra

13. apríl 2012 kl. 09:17

Loðnuskip að veiðum nú á vertíðinni. (Mynd: Ólafur Óskar Stefánsson).

Aflinn mældur í tonnum jókst um 64%

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum marsmánuði, metinn á föstu verði, var 21% meiri en í mars 2011, samkvæmt frétt Hagstofu Íslands. Það sem af er árinu hefur aflinn aukist um 29% miðað við sama tímabil 2011, sé hann metinn á föstu verði. Aukningin í tonnum var hins vegar 63% og skýrist það fyrst og fremst af stórauknum uppsjávarafla.

Aflinn í mars nam alls 193.000 tonnum samanborið við 118.000 tonn í mars 2011. Botnfiskafli jókst um rúm 1.400 tonn frá mars 2011 og nam tæpum 46.100 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 24.000 tonn, sem er samdráttur um rúm 300 tonn frá fyrra ári.

Ýsuaflinn nam tæpum 6.500 tonnum sem er um 600 tonnum minni afli en í mars 2011. Karfaaflinn jókst um rúm 3.600 tonn samanborið við mars 2011 og nam tæpum 7.900 tonnum. Um 3.500 tonn veiddust af ufsa sem er um 400 tonna samdráttur frá mars 2011.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 143.000 tonnum, sem er um 74.000 tonnum meiri afli en í mars 2011. Aukningu í uppsjávarafla má rekja til rúmlega 141.000 tonna loðnuafla í mars samanborið við tæplega 69.000 tonn í mars 2011. Um 800 tonn veiddust af síld, en enginn síldarafli var í mars 2011. Tæp 500 tonn veiddust af kolmunna í marsmánuði samanborið við um 600 tonn í mars 2011.

Flatfiskaflinn var tæp 2.300 tonn í mars 2012 og dróst saman um rúm 600 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam um 1.200 tonnum samanborið við 840 tonna afla í mars 2011.