þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mathöll opnar á sjómannadaginn

8. maí 2018 kl. 17:00

Fyrirtækin í Húsi sjávarklasans eru núna um 90 talsins – leitað er að fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi til að fullskipa húsið. Mynd/íslenski sjávarklasinn

Tækifæri fyrir haftengd fyrirtæki að nýta aðstöðu í Húsi sjávarklasans.

Opnunarhelgi Granda Mathallar – í Húsi sjávarklasans - verður samhliða Hátíð hafsins á sjómannadaginn 1. júní.

Þetta skref – opnun mathallar á neðri hæð Húss sjávarklasans – er það nýjasta í uppbyggingu klasasamfélagsins úti á Granda. Uppbyggingin hefur gengið vel. Sjávarklasinn hóf starfsemi í húsinu árið 2012 og þá voru 10 fyrirtæki sem hófu starfsemi í húsinu með um 30 starfsmenn. Fljótlega eftir opnun var sett á laggirnar fyrsta opna vinnurýmið fyrir frumkvöðla og eru fjögur slík rými starfrækt í húsinu um þessar mundir.

„Fyrirtækin eru núna um 90 talsins,“ segir Þór Sigfússon hjá Sjávarklasanum. Þór segir að mikil eftirspurn sé eftir plássum en klasinn vilji að uppistaðan í húsinu séu fyrirtæki sem tengjast á einhvern hátt sjávarútvegi, fiskeldi eða öðrum haftengdum greinum.

„Nú eru um 75% fyrirtækjanna í húsinu sem tengjast sjávarútvegi og við viljum halda því hlutfalli,“ segir Þór. „Það er hins vegar gaman að segja frá því að ótrúlega oft hefur það gerst að nýir leigjendur, sem höfðu ekki hugsað sér að þróa viðskiptahugmyndir sínar í tengslum við haftengdar greinar, eru núna margir hverjir búnir að tengjast okkar klasavinnu.“

Vilji til samvinnu mikill

Í nýlegri athugun Íslenska sjávarklasans á samstarfi fyrirtækja í Húsi Sjávarklasans kom í ljós að um 70% fyrirtækjanna í húsinu höfðu átt samstarf við annað fyrirtæki í húsinu á síðastliðnum tveimur árum. Þetta hlutfall er töluvert hærra en fram kemur í niðurstöðum athugana á erlendum húsum sem bjóða svipaða þjónustu.

„Við teljum að skýringa á þessu sé að finna í þeirri staðreynd að fyrirtækin hjá okkur eru flest hver tengd í gegnum sjávarklasann,“ segir Þór sem segist þess vegna vilja halda áfram að bjóða fyrst og fremst fyrirtækjum sem tengjast hafinu aðstöðu í húsinu.

„Nú eru tvö rými, 38 og 50 fermetra, að losna seinna í sumar og við erum að leita að leigjendum fyrir þessi rými.“ Þá segir Þór að húsið geti endalaust tekið á móti frumkvöðlum sem þurfa oft aðeins eitt skrifborð í opnu rými en sérstök frumkvöðlarými eru í boði fyrir slík fyrirtæki.

Hvers konar samstarf?

Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að um 7% þessara samstarfsverkefna í Húsi sjávarklasans hafa falist í stofnun sameiginlegra fyrirtækja og 40% hafa falist í sameiginlegum verkefnum sem eru annað hvort til skemmri eða lengri tíma. Rúmlega helmingur verkefnanna er síðan einhvers konar samstarf þar sem aðilar sinna þjónustu við hvern annan. Fjölbreytni í samstarfi er mikil.