miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Með augun á öllum heimsins veiðum

Guðsteinn Bjarnason
16. nóvember 2017 kl. 12:00

Árni Mathiesen unir hag sínum vel í Róm þar sem hann hefur nú um sjö ára skeið verið æðsti yfirmaður Fiskveiði og fiskeldisdeildar FAO. MYND/GB

Árni Mathiesen hefur haft í nógu að snúast sem yfirmaður Fiskveiði- og fiskeldisdeildar FAO undanfarin sjö ár. Deildin teygir anga sína um allan heim og hefur meðal annars þróað alþjóðlega umgjörð utan um ábyrgar fiskveiðar.

„Það er nú dálítil saga að segja frá því,“ segir Árni Mathiesen spurður út í aðdraganda þess að hann hélt til Rómar að stýra deild fiskveiða og fiskeldis innan FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Árni hefur verið þar í sjö ár og unir hag sínum vel. Eftir hrunið hér heima haustið 2008 leið ekki á löngu þar til stjórn Sjálfstæðiflokks og Samfylkingar hrökklaðist frá völdum og Árni tók til við að stunda dýralækningar á ný, tímabundið, eftir að hafa verið fjármálaráðherra og þar áður sjávarútvegsráðherra.

Fiskifréttir brugðu sér yfir hafið og heimsóttu Árna á skrifstofu hans í Róm. Hann hefur ekki komið fram í stærri viðtölum á Íslandi eftir að hann hélt af landi brott síðla árs 2010.

Aðdraganda þessara umskipta í lífi Árna rekur hann aftur til ársins 1998 þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti hélt í heimsókn til Rómar að hitta bæði páfann og Jacques Diouf, sem þá var aðalframkvæmdastjóri FAO.

Þar stakk Ólafur Ragnar upp á því að á Íslandi yrði haldin alþjóðleg ráðstefna um sjálfbærni og ábyrgð í fiskveiðum og lagði jafnframt til að þjóðir heims hættu styrkveitingum til fiskveiða.

„Síðan gerðist nú ekkert í því máli fyrr en eftir kosningarnar 1999,“ segir Árni. „Þá er ég orðinn sjávarútvegsráðherra og þetta mál var samþykkt í ríkisstjórninni. Ég fór síðan í að undirbúa það og ráðstefnan var svo haldin árið 2001. Það var þá sennilega einhver stærsta ráðstefna af þessu tagi sem haldin hefur verið á Íslandi.“

Nýjar nálganir mótaðar
Ráðstefnan var haldin undir yfirskriftinni Ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar og markaði á sínum tíma mikilvæg þáttaskil í alþjóðlegri umræðu um ábyrgar fiskveiðar.

Af hálfu FAO var undirbúningurinn í höndum Gríms Valdimarssonar, sem þá var yfirmaður fiskiðnaðarsviðs FAO.

Hér heima var þetta samstarfsverkefni sjávarútvegsráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, þannig að ráðuneytisstjórarnir Þorsteinn Geirsson og Sverrir Haukur Gunnlaugsson unnu mikið að undirbúningnum. Sett var upp verkefnastjórn hér á Íslandi, sem Friðrik Pálsson stýrði, en Árni var síðan forseti ráðstefnunnar sjálfrar.

„Þessi ráðstefna gekk mjög vel,“ segir Árni. Hún varð einn af stóru áföngunum í þróun ábyrgra fiskveiða í heiminum, næst á eftir Siðareglum FAO um ábyrgð í fiskveiðum sem samþykktar voru árið 1995 og hafa síðan verið lagðar til grundvallar hverskyns vottun á sjálfbærum veiðum.

Upp úr ráðstefnunni spruttu síðan nýjar nálganir sem FAO hefur haldið á lofti allar götur síðan, fyrst svokölluð vistkerfisnálgun við fiskveiðar og síðar einnig vistkerfisnálgun við fiskeldi.

„Þetta er að mörgu leyti hugmyndafræðilegur grundvöllur að flestu því sem við erum að gera hér,“ segir Árni.

Á vettvangi Norðurlandanna
„Síðan er það þriðji þátturinn í þessu sem líka skiptir máli en það er að á tíunda áratugnum var á vegum Norðurlandaráðs talsvert mikil vinna unnin að umhverfismerkingum.“

Sú vinna var langt komin í lok tíunda áratugarins og þá hélt Árni til Svalbarða á fund norrænu ráðherranefndarinnar um fiskveiðar og fiskeldi, þar sem verið var að leggja lokalínurnar fyrir þetta verkefni.

„Þar var þá einnig Ritt Bjerregaard, ráðherra í Danmörku og einn af frægustu stjórnmálamönnum Dana, sem ég hafði kynnst aðeins meðan hún var umhverfiskommissar hjá Evrópusambandinu. Hún hafði staðið fyrir fundi um matvælaöryggi í Kaupmannahöfn skömmu áður sem ég hafði farið á og ég var nú með einhverja uppsteyt þar.“

Árni segir að það hafi stundum farið eitthvað í taugarnar á félögum sínum á Norðurlöndunum að þeir vissu ekki alltaf hvað hann myndi segja á fundunum.

„Þeir vildu helst að það væri búið að senda þeim fyrir fundina allt sem menn vildu segja. Ég gerði það nú ekki og var nú að segja eitthvað á fundinum sem kom þeim á óvart og var ekki sammála öllu sem þeir voru að segja. Og þetta voru einhver vandamál fyrir Ritt, en við leystum úr því vel þannig að við skildum sem mestu mátar.“

Árni fenginn í kynningarstarfið
Síðan gerðist það á öðrum fundi sömu ráðherranefndar nokkru síðar, þegar Ritt Bjerregaard var í forsæti, að hún lagði það til við fundinn að Árna yrði falið að koma niðurstöðu norrænu ráðherranna um umhverfismerkingar á framfæri við alþjóðasamfélagið.

„Hún lagði þetta nú til alveg óundirbúið, því ég vissi ekki af því og enginn annar, en úr varð að við tókum að okkur að kynna þessar hugmyndir fyrir Bandaríkjamönnum, Evrópusambandinu og hérna í FAO.“

Íslendingar lögðu það svo til á næsta fundi fiskveiðinefndar FAO, COFI-nefndarinnar sem er lykilstofnun bæði innan FAO og í alþjóðlegum sjávarútvegi, að FAO tæki það að sér að semja leiðbeiningar um umhverfismerkingar.

„Og það var samþykkt hérna, deildin tók þetta upp og það var sett upp sérfræðinganefnd sem tók þetta að sér. Ég vann þetta hérna með Grími Valdimarssyni og Kristjáni Þórarinssyni, og Guðrúnu Eyjólfsdóttur sem var í ráðuneytinu,“ en Grímur var þá sviðsstjóri hjá FAO og Kristján er einn helsti sérfræðingur Íslendinga á sviði ábyrgra fiskveiða og vottunar.

„Kristján leiddi þetta sem sagt tæknilega og starfsmenn ráðuneytisins leiddu svo pólitíska starfið, og það fór svo að þetta var samþykkt á fundi COFI árið 2005. Síðan í framhaldi af því voru samþykktar samskonar leiðbeiningar fyrir fiskeldi og sams konar leiðbeiningar fyrir ferskvatnsveiðar.“

Tækifæri opnast
Þar með var Árni orðinn vel þekktur á þessum alþjóðlega vettvangi sem málsvari mikilvægra mála sem tekist hafði að þróa með góðum árangri.

„Þannig að þegar kemur að því að forveri minn, Ichiro Nomura, var að hætta, og Grímur var einnig að hætta hérna á sama tíma, og ég var þá hættur í pólitíkinni heima, þá opnaðist sem sagt þessi möguleiki.“

Árni ákvað þá að sæka um deildarstjórastöðuna og fékk starfið, en Jaques Diouf var þá ennþá aðalframkvæmdastjóri FAO.

„En auðvitað byggðist þessi niðurstaða á því að ofan á það að vera dýralæknir og fisksjúkdómafræðingur, búinn að vera sjávarútvegsráðherra og búinn að vera fjármálaráðherra, þá var ég líka búinn að vera að leiða heilmikið starf hérna inni á stofnuninni, bæði með FAO og með deildinni. Það voru einmitt þessir stóru þættir eins og vistkerfisnálgunin og leiðbeiningar um umhverfismerkingar, hlutir sem ég hafði átt stóran hlut í. Auðvitað með mínu fólki heima, bæði í ráðuneytinu og annars staðar.“

Í þessu sambandi síðan líka máli að staðan var laus á sama tíma og Íslendingur var að fara úr yfirmannsstöðu hjá FAO.

„Ef Grímur hefði verið áfram hefði ég auðvitað ekki fengið stöðuna, þannig að þetta small allt saman eins og þessar tilviljanir eru í lífinu. Og ég er þá búinn að vera hérna núna í sjö ár.“

Þróunin heldur áfram
Störf Árna hjá FAO hafa síðan að stórum hluta snúist um að halda áfram að þróa alþjóðlega umgjörð stofnunarinnar um ábyrgar og sjálfbærar fiskveiðar.

Um það bil ári eftir að Árni var kominn til starfa í Róm hætti Diouf og við æðsta embætti stofnunarinnar tók Brasilíumaðurinn José Graziano da Silva.

„Hann hefur verið ekki síður áhugasamur um þessi mál en Diouf og stutt vel við bakið á því sem við höfum verið að gera hérna, og þá sérstaklega Frumkvæði FAO að bláum hagvexti og núna síðast Samkomulaginu um hafnarríkiseftirlit sem er skuldbindandi samkomulag.“

Ákvörðun um það samkomulag hafði reyndar verið tekin á COFI-fundi árið 2005, það er áður en Árni kom til Rómar, en hann hafði engu að síður verið á þeim fundi sem ráðherra.

„Þetta var einmitt eitt af því sem við höfðum verið að berjast mikið fyrir og var samþykkt þá á þessum fundi 2005.“

Það tók hins vegar mörg ár að ná samkomulagi og fá nægilega mörg ríki til þess að staðfesta þetta samkomulag svo það tæki gildi.

„Það gerðist ekki fyrr en í fyrra og hafði þá tekið sjö ár frá því samningurinn var undirritaður sem er ótrúlega langur tími, en það var mikil barátta sem Graziano tók þátt í með okkur af fullum krafti.“

Árni segir hafnarríkiseftirlitið mjög mikilvægt tæki sem komi að góðu gagni við að stemma stigu við ólöglegum fiskveiðum.

Barátta gegn þrælahaldi
„Frá því þetta samkomulag var gert hefur þróunin líka orðið sú, að þó það sé ekki sérstaklega gert til að stöðva þrælahald um borð í fiskiskipum og bæta aðstöðu og umhverfi starfsmanna í greininni, þá veitir það hafnríkjum ekki bara rétt heldur leggur þeim á herðar skyldu til að fylgjast með skipum sem koma inn í hafnirnar. Og þó það sé gert fyrst og fremst til að athuga aflann eða aðstæður um borð vegna veiðanna sjálfra þá komast menn náttúrlega ekki hjá því að athuga þessa hluti í leiðinni.“

Það sem enn vantar tilfinnanlega inn í þetta er að hægt sé að hafa sé eftirlit með því þegar umskipun á hafi úti á sér stað. „Við þurfum nauðsynlega að bæta því inn í þetta.“

Á vegum FAO hefur síðan einnig staðið yfir vinna að því gerð verði allsherjar skrá yfir öll fiskiskip í heiminum. Jafnframt er unnið að nákvæmu skráningarkerfi yfir afla skipanna, þannig að hægt sé að upprunavotta veiðarnar. Ari Guðmundsson leiðir fyrra verkefnið innan deildarinnar og Jón Erlingur Jónasson fastafulltrúi Íslands leiddi gerð leiðbeinandi reglna um aflaskráningu.

Ólöglegum veiðum verði útrýmt
„Svo erum við með gagnsæisverkefni í gangi og það hafa verið gerðar alls konar svona pledges, loforð um bót og betrun, þannig að staðan í þessu hefur batnað virkilega mikið. Alþjóðasamfélagið er virkilega að taka á þessu og þjóðir heimsins að leggja fjármuni í þetta.“

Hann segir að ör tækniþróun hafi hjálpað heilmikið til í þessum efnum, og nú sé svo komið að menn eru farnir að sjá fram á að hægt verði að útrýma ólöglegum veiðum um heim allan.

„Þetta hefur náttúrlega verið gert á ákveðnum svæðum þar sem eru sterk svæðasamtök, eins og í Norður-Atlantshafinu, undir forystu Kjartans Hoydal og Stefáns Ásmundssonar þannig að það ætti náttúrlega að vera hægt að gera það annars staðar líka.“

Bákn og breytingarafl
Árni tekur undir það að stofnunin sé vissulega mikið bákn og hlutirnir taki tíma. Hins vegar hafi FAO einnig verið virkur þátttakandi í þróun sjávarútvegs í heiminum, og vissulega átt mikilvægan þátt í byltingarkenndri þróun sums staðar.

„Og ekki bara sjávarútvegi heldur líka landbúnaði og matvælaöryggi og öllum umhverfismálum sem lúta að þessu,“ segir Árni.

Hann segir engan vafa leika á því að stofnunin hafa átt mikinn þátt í að ýta áfram þeirri þróun í átt til óháðrar vottunar, sem nú er tekið að leika mikið hlutverk í veiðum og vinnslu hvarvetna.

„Ég held við getum ekki sagt að við höfum byrjað með vottunina en ég held að við höfum skapað rammann sem varð nauðsynlegur til þess að vottunin yrði viðurkennd, og að greinin og hinar ýmsu þjóðir myndu sætta sig á það að það væru utanaðkomandi aðilar sem væru að kíkja á þetta og segja álit sitt og það væri eitthvað fólk úti í heimi sem vildi hlusta á slíkt. Það vorum við sem bjuggum til það umhverfi og það var reyndar það verkefni sem Ritt lagði til á sínum tíma að ég yrði beðinn um að koma á framfæri við aðra samstarfsaðila Norðurlandanna í heiminum.“

Mætti lengi vel mótstöðu
Sú þróun mætti lengi vel harðri mótstöðu af hagsmunaaðilum.

„Já, og við heima á Íslandi vorum ekkert ánægðir með þetta í fyrstu. Enda vorum við mjög framarlega í fiskveiðistjórnun og erum enn. Staða fiskistofnanna er mjög góð hjá okkur miðað við það sem hún er víða annars staðar, og hún hefur batnað og fer vonandi batnandi áfram.“

Hann segir samt nauðsynlegt að Íslendingar horfi á þau mál í víðara víðara samhengi. Ekki sé nóg að einblína bara á ástandið heima fyrir .

„Það er ekkert gott fyrir okkur ef allt er í rugli í fiskveiðum og fiskeldi annars staðar í heiminum, jafnvel þótt allt sé í lagi hjá okkur. Menn gera bara oft ekki þennan greinarmun.“

Blár hagvöxtur
Það nýjasta í þessum efnum sem FAO hefur verið að þróa síðustu árin er það sem nefnt hefur verið Blue Growth Initiative, eða verkefnið um bláan hagvöxt.

„Það felst í því að líta heilstætt á veiðarnar og samfélögin sem standa á bak við veiðarnar, reyna að leysa úr vandamálunum í samhengi og þannig að allir njóti þess þegar að hlutirnir batna,“ segir Árni.

„Því yfirleitt er það nú þannig að við vitum alveg hvað við eigum að gera varðandi fiskveiðarnar sjálfar. Það þarf yfirleitt að minnka veiðarnar og minnka álagið og þá minnkar aflinn og þá fækkar störfunum. Og í samfélögum sem reiða sig alfarið á veiðarnar og eiga afkomu sína undir þeim þá gerist þetta ekki nema þú finnir einhverjar lausnir á vanda þeirra sem verða eftir í fjörunni þegar ýtt er úr vör.“

Og þar segir Árni tvo þætti spila saman. Annar þeirra snýst um að auka verðmæti sjávarfangs, svipað því sem gert hefur verið hér heima með AVS-verkefninu sem var sett af stað upp úr aldamótunum síðustu.

„Það snerist um fá meiri verðmæti út úr aflanum, og það hefur virkað heldur betur hjá okkur,“ segir Árni. „Út af fyrir sig stálum við reyndar hugmyndinni hjá Norðmönnum en hún hefur kannski virkað heldur betur hjá okkur en hjá þeim.“

Fiskeldi og laxveiðar
Hitt atriðið varðandi bláa hagvöxtinn snýst svo um það hvernig umhverfið er nýtt til annarra þátta en menn hafa verið vanir að gera og tekjurnar auknar með því að fara aðrar leiðir en áður.

„Þar er náttúrlega fiskeldið mjög nærtækt,“ en þessar hugmyndir passa vissulega beint inn í umræðuna hér heima þessa stundina, þar sem hagsmunir fiskeldis og laxveiða vegast á.

„Auðvitað vitum við að sveitir á Íslandi væru ekki eins blómlegar ef ekki væri fyrir laxveiðina. Því lax úr laxveiðiá er miklu dýrari heldur en lax úr fiskeldi. Það er miklu meira sem maður hefur upp úr honum, og þess vegna þarf auðvitað að taka tillit til þeirra hagsmuna þegar teknar eru ákvarðanir um fiskeldi heima á Íslandi. Að mínu viti er nú samt hægt að leysa úr flestum þeim vandamálum ef menn gefa sér tíma og leyfa sér að hugsa aðeins um hlutina. Þá finna menn lausnir á því og vega hagsmunina saman.“

Enginn flótti, bara tækifæri
FAO er til húsa í stórri byggingu á glæstum stað í Róm, rétt sunnan við endann á kappreiðabrautinni stóru, Circus Maximus, og með útsýni til rústanna af gömlu keisarahöllunum á Palatínhæð. Í þægilegu göngufæri er hringleikahúsið alræmda, Kólosseum.

Byggingin hýsti áður nýlendumálaráðuneyti Mússólínis, en þegar FAO var stofnuð árið 1945, í vikunni á undan Sameinuðu þjóðunum, þá var staðarvalið að sögn Árna haft til marks um að Ítalía væri aftur tekin inn í alþjóðasamfélagið.

„Að búa í Róm? Það er alveg frábært,“ segir Árni um það hvernig tilveran hefur verið í borginni eilífu þar sem hann hefur nú búið ásamt fjölskyldu sinni undanfarin ár.

„Okkur hefur liðið mjög vel hérna, og eigum orðið erfitt með að ímynda okkur lífshlaup fjölskyldunnar án þessa að hafa verið hérna. Og ef við hefðum ekki lent í þessum erfiðleikum með bankana, sem maður hefði svo gjarnan viljað hafa verið laus við, þá hefðum við sennilega ekki komið hingað. Það er dálítið skrítið,“ segir Árni.

Bankahrunið hér á landi með öllum þeim ósköpum sem því fylgdu í þjóðlífinu er ekki síður en þátttaka Árna í uppbyggingu alþjóðlegrar umgjörðar um ábyrgar fiskveiðar partur af aðdraganda þess að Árni flutti til Rómar.

„Nei nei, það var enginn flótti. Bara tækifæri,“ segir hann, spurður hvort ástandið hér heima hafi verið honum það erfitt að hann hafi hreinlega þurft að forða sér.

Árni segist hins vegar geta tekið undir með því sem einhver sagði fyrir stuttu að þótt efnahagslífið heima sé búið að jafna sig þá sé þjóðfélagið greinilega ekki komið á þann stað ennþá.