föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meira plast en fiskur í heimshöfunum!

22. janúar 2016 kl. 10:21

Plastrusl.

Að minnsta kosti 8 milljónir tonna af plasti lenda í hafinu á hverju ári

Í framtíðinni mun plast verða ráðandi í heimshöfunum ef jarðarbúar halda áfram að henda plastafgöngum og plastumbúðum í sjóinn af sama hirðuleysi og hingað til. Ef ekki tekst að snúa þessari þróun við verður umfang plastsins meira en nemur þyngd allra fiska í sjónum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá World Economic Forum. Notkun á plasti hefur tífaldast síðustu 50 árin og á næstu tveimur áratugum er gert ráð fyrir því að notkun á plasti tvöfaldist.

Áætlað er að um 150 milljónir tonna af plasti séu í höfunum í dag. Að minnsta kosti 8 milljónir tonna af plasti lenda í hafinu á hverju ári sem jafngildir því að einn ruslabíll sturti plastafgöngum í sjóinn á hverri mínútu. Ef fram fer sem horfir verður árið 2025 eitt tonn af plasti í sjónum á móti hverjum þremur tonnum af fiski. Árið 2050 nær plastið yfirhöndinni og verður þá meira í tonnum talið en allir fiskar í heimshöfunum.

Í skýrslunni kemur fram að vandamálið sé það að plastið er einnota og lítið af því er endurunnið. Aðeins 14% af plasti er endurunnið. Með nýrri tækni, notkun á öðrum efnum en plasti og með aukinni endurvinnslu á plasti má komi í veg fyrir að þessi spá verði að veruleika, segja skýrsluhöfundar.