miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meiri burðargeta breytir útgerðarmynstrinu

Guðjón Guðmundsson
5. júlí 2019 kl. 07:00

Viðar Sigurjónsson skipstjóri Þórunnar Sveinsdóttur. Aðsend mynd

Gagngerar breytingar gerðar á Þórunni Sveinsdóttur

Þórunn Sveinsdóttir VE kom til Vestmannaeyja fyrir skemmstu eftir gagngerar endurbætur og lengingu upp á 6,6 metra í skipasmíðastöðinni Karstensens í Danmörku þar sem skipið var smíðað árið 2010. Skipinu var siglt til Danmerkur í marsmánuði á þessu ári og verkinu lauk á áætluðum tíma. Viðar Sigurjónsson skipstjóri ber mikið lof á vinnu og skipulag hjá Karstensens.

„Þórunn Sveinsdóttir er núna nánast eins og nýtt skip. Það var nánast allt tekið í nefið. Við fengum sjó á milli þilja í lestinni síðasta vetur. Lestin var því algjörlega tekin í gegn. Hún er stálklædd að innan og það þurfti að brenna stálið af og úranþan einangrunin var spænd í burtu með háþrýstidælum, alls um 160 rúmmetrar.  Vélin og ljósavélar voru teknar í gegn sem og túrbínan og ýmsar dælur. Skipið á að geta snúist fyrir okkur áfallalítið næstu árin. Svo virðist sem það gangi líka eitthvað betur,“ segir Viðar sem sigldi skipinu heim frá Danmörku. Hann segir það oft raunina þegar skip eru lengd að ganghraðinn aukist.

Önnur vinnumenning

Karstensens átti lægsta tilboðið í verkið sem Viðar segir reyndar nokkuð sérstakt í ljósi þess launaliðurinn í Danmörku sé að minnsta kosti helmingi hærri en í Póllandi. Þetta vinni Danirnir upp með ströngu skipulagi og með því að halda sér að verki.

„Það er ekkert djöfulsins gauf í kringum þetta. Menn eru mættir klukkan sjö og fara í 20 mínútna kaffihlé og 30 mínútna matarhlé en ekki fyrr en flautan gefur merki. Vinnudeginum lýkur svo klukkan þrjú. Menn halda sér að verki og það sjást aldrei tveir eða þrír verklausir á spjalli eins og við sjáum svo víða. Þetta er allt önnur vinnumenning. Við getum því ekki annað en hlaðið Karstensens lofi.“

Forkælir og krapavél

Með lengingunni fæst betra vinnurými uppi á dekki. Skipið er nú í höfn í Vestmannaeyjum þar sem starfsmenn frá Kælingu eru að setja upp forkæli á millidekkinu. Stefnt er að því að hitastigið á fiskinum sem fer ofan í lest verði nálægt 0° Celsius. Ennfremur verður sett upp öflug krapavél frá Kælingu í lestina. Fram til þessa hefur verið notast við ís en Viðar segir margt sparast með krapavélinni.

„Undanfarin ár hefur áhöfnin verið að moka rúmum 2.000 tonnum af ís á hverju ári. Þannig að frá því við fengum skipið hefur verið mokað um 20.000 tonnum af ís. Krapavélin léttir álagi af áhöfninni og sömuleiðis hefur verið kostnaður samfara því að nota ís, ekki síst flutningar á ís.“

Útgerðarmynstrið breytist

Í lestinni verður pláss fyrir 200 kör til viðbótar. Með því að fylla lestina verður hægt að koma þar fyrir 604 körum sem taka um 180 tonn. Viðar segir vigtina meiri þegar notaður er krapi og má þar alveg bæta við 5-7%. Þórunn bar mest fyrir breytinguna um 120 tonn.

Útgerð Þórunnar Sveinsdóttur hefur gengið glimrandi vel allt frá því skipið kom nýtt til landsins 2010. Með breytingunni á skipinu verður einnig breyting á útgerðarmynstrinu.

„Við höfum sótt mikið á Vestfjarða- og Austfjarðamið og það hefur tekið okkur tvo til þrjá sólarhringa að fylla skipið. Þá höfum við þurft að stíma heim og landa í Vestmannaeyjum. Þegar því er lokið er svo stutt eftir af vikunni að við komumst ekki aftur á veiðar vestur eða austur. Þá höfum við farið í það að leita hérna í kringum Vestmannaeyjar en það er lítið spennandi nánast 80% af árinu. Það er lítið af fiski í kringum eyjarnar nema rétt yfir vertíðina. Pælingin var því sú að fara bara í einn túr í hverri viku, vera lengur að og koma með meiri afla að landi.“

Með þessu vinnst margt. Minna verður um millilandanir og talsverður olíusparnaður verður. Stefnt er að því að Þórunn Sveinsdóttir fari á veiðar í fyrsta sinn eftir þessar gagngeru breytingar laugardaginn 29. júní.