laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Merking veiðarfæra kemur til greina

24. maí 2019 kl. 17:00

Töpuð veiðarfæri má víða finna á fjörum. Mynd/Landvernd

Skylda er samkvæmt reglugerð að fullreyna endurheimt á töpuðum veiðarfærum úr sjó. Ef veiðarfæri finnst ekki skal tilkynna um tap þess til Landhelgisgæslu Íslands með bestu mögulegu upplýsingum.

Engin sérstök hreinsun fer fram af hálfu umhverfisyfirvalda í fjörum lands í eigu hins opinbera. Umhverfisstofnun vinnur hins vegar almennt að vöktun og hreinsun á rusli úr fjörum.

Þetta kemur fram í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni, þingmanns Miðflokksins, um drauganet. Þar spyr hann um hvernig sé unnið að því að ná drauganetum upp úr sjó, þ.e. veiðarfærum sem liggja eða fljóta gagnslaus um í sjó og hafa skaðleg áhrif á lífríki hafsins, og um hverjar séu áætlanir stjórnvalda í þeim efnum.

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur Fiskistofa í nokkrum tilvikum leigt fiskiskip til að draga upp veiðarfæri sem skilin hafa verið eftir í sjó eftir lok viðkomandi veiða/vertíðar. Vinna er í gangi í ráðuneytinu um að efla forvarnir á þessu sviði.

Merkingar nauðsynlegar

„Svokölluð „drauganet“ finnast yfirleitt þegar þau koma upp með veiðarfærum við veiðar eða reka á strendur landsins. Til þess að hægt sé að rekja þau til eigenda þarf að vera til staðar ákvæði um merkingu veiðarfæra, svo sem netateina, lína og belgja, og hluta togvarpa og dragnóta. Slíkt er til skoðunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem verið er að endurskoða regluverk um merkingu veiðarfæra,“ segir í svarinu.

Skylda er samkvæmt reglugerð að fullreyna endurheimt á töpuðum veiðarfærum úr sjó. Ef veiðarfæri finnst ekki skal tilkynna um tap þess til Landhelgisgæslu Íslands með bestu mögulegu upplýsingum.

Úrvinnslusjóður hefur gert samning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi um úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra úr gerviefnum. Markmið samningsins er að koma í veg fyrir mengun af völdum úrgangsveiðarfæra, en talið er að veiðarfæraúrgangur nemi allt að 1.100 tonnum á ári.