föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Merktir skötuselir frá Hjaltlandi og Færeyjum veiðast við Ísland

1. júlí 2008 kl. 13:32

Útbreiðslusvæði skötusels við Ísland hefur stækkað verulega á undanförnum árum og stofninn eflst. Þetta er talið stafa af hlýnun sjávar. Merkingar á skötusel hafa nú leitt í ljós að einhver samgangur virðist vera milli skötuselsstofnsins hér og samsvarandi stofna í nágrannalöndunum.

Í nýlegum leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar voru 150 skötuselir merktir um borð í Dröfn RE 35 á svæði norður af Eldey. Þessi merking var framkvæmd með venjulegum T-merkjum og er framhald á merkingu skötusels með rafeindamerkjum sem fram fór fyrir nokkrum árum á svipuðu svæði.

Sú merking var liður í sameiginlegu verkefni Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Hjaltlendinga sem styrkt var af Norrænu ráðherranefndinni í því skyni að afla aukinnar þekkingar á líffræði og háttum skötusels í N-Atlantshafi.

Í frétt frá Hafrannsóknastofnuninni kemur fram að nú þegar hafi endurheimst hér merktir skötuselir frá Hjaltlandi og Færeyjum (einn frá hvoru landi) sem sýni að eitthvert far sé milli landa hjá þessari tegund sem annars sé ekki ýkja sundfiskslega vaxin og hafi fram að þessu verið talin frekar lítill farfiskur.

Skötuselsmerkingin nú í vor, að viðbættum 50 skötuselum sem merktir voru í netaralli við Snæfellsnes nú í aprílmánuði, er sú umfangsmesta sem framkvæmd hefur verið á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar fram að þessu.

Stefnt er að því að merkja eitthvað svipað af skötusel á næstu árum þannig að úr því fáist skorið hvort skötuselur gengur einnig frá landinu svo og til að afla frekari vitneskju um far hans hér við land og hugsanlega um náttúruleg afföll.

Eins og flestir sjómenn þekkja hefur orðið mikill uppgangur í skötuselsstofninum undanfarin 6 til 7 ár og hann haslað sér ný búsvæði við landið, aðallega norður og vestur með Vesturlandi, en þessi aukna stofnstærð og útbreiðsla er talin standa í sambandi við hlýnun sjávar hér við land en tegundin er í raun hlýsjávartegund sem var á nyrstu mörkum útbreiðslusvæðis síns í hlýsjónum við suðurströndina.

Skipstjóri í leiðangrinum og eigandi Drafnar RE 35 var Gunnar Jóhannsson og leiðangursstjóri var Einar Jónsson sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni