þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mestum uppsjávarafla landað í Neskaupstað

5. febrúar 2014 kl. 12:29

Síldarvinnslan í Neskaupstað

Landanir á uppsjávarafla hafa undanfarin ár færst í auknum mæli til Austfjarða

Á síðasta ári var mestum uppsjávarafla landað í Neskaupstað eða 201.169 tonnum, að því er fram kemur á vef Fiskistofu. Næstmestum afla var landað í Vestmannaeyjum eða 173.297 tonnum og því næst kemur Vopnafjörður með 86.491 tonn. Heildarafli í uppsjávartegundum nam 924 þúsund tonnum árið 2013 en 1.021 tonni árið 2012. Uppistaða aflans undanfarin ár hefur verið loðna, makríll og síld.

Landanir á uppsjávarafla hafa undanfarin ár færst í auknum mæli til Austfjarða. Árið 1993 var 42% af öllum uppsjávarafla landað á Austurlandi en hlutfallið hefur síðan vaxið nokkuð jafnt og þétt og í fyrra var það í 61%. Suðurland er sem áður í öðru sæti með 19% af lönduðum afla, en Vestmannaeyjahöfn er þar með 18,7% löndunarhlutfall á landsvísu.