laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Metár hjá Gullver í verðmætum

19. desember 2019 kl. 13:00

Gullver NS jólaljósum prýddur. Mynd/Ómar Bogason

Verðmæti skipsins í ár eru 190 milljónum króna meiri en á síðasta ári þrátt fyrir örlítið færri tonn upp úr sjó.

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði í síðasta sinn á árinu á þriðjudag. Skipið var með fullfermi eða 106 tonn og var þorskur uppistaða aflans. 

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar og að árið hefur verið afar gott hjá Gullver. Heildaraflinn á árinu nemur 6.090 tonnum og er verðmæti aflans 1.415 milljónir króna. 

Ársafli skipsins er 28 tonnum minni en í fyrra en það ár var það langbesta í sögu skipsins hvað afla varðar. Verðmæti skipsins í ár eru hins vegar 190 milljónum króna meiri en á síðasta ári. Það verður því vart annað sagt en að ársútkoman hjá Gullversmönnum sé glæsileg.

Skipstjórar á Gullver eru Þórhallur Jónsson og Rúnar L. Gunnarsson. Í spjalli heimasíðunnar við Rúnar kemur fram að ánægja ríkti með árið. 

„Þetta er afar fínt ár sem nú er að kveðja, en þó dró aðeins úr aflabrögðunum undir lok ársins. Menn verða að vera afar ánægðir með útkomuna. Það er vart hægt að biðja um mikið betra,“ segir Rúnar.

Í öðrum fréttum af fyrirtækinu segir einnig frá því á heimasíðunni að þessa dagana eru Síldarvinnsluskipin að landa síðustu kolmunnaförmunum fyrir hátíðarnar. Bjarni Ólafsson AK landaði 370 tonnum sl. mánudag en hann þurfti að koma í land vegna smávægilegrar bilunar. Í gær var landað tæpum 1.760 tonnum úr Beiti NK og Börkur NK kom í nótt með 2.200 tonn. 

Alls hafa 13.250 tonn af kolmunna borist til fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað frá því veiðar hófust í nóvember. Segir Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri að lokið verði við að vinna kolmunnann um helgina.