laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Metverð í Grimsby: 972 krónur á kíló fyrir ýsu

12. apríl 2010 kl. 15:00

Fiskverð náði áður óþekktum hæðum í Grimsby í síðustu viku. Verð á ýsu fór upp í 5 pund á kílóið á fiskmarkaði á fimmtudeginum sem er um 972 krónur íslenskar, að því að fram kemur í Grimsby Telegraph. Daginn áður hafði ýsan selst á 2 pund eða 389 krónur íslenskar. Verðtoppur eins og varð á fimmtudaginn kemur mjög illa við fiskkaupmenn og sumir þeirra fóru tómhentir heim.

Rætt er við fiskkaupmann sem bendir á að nýting við flakavinnslu sé um 50%. Þegar reiknaður er kostnaður við vinnsluna þurfi þeir að selja ýsuflökin á 9,9 pund kílóið eða 1.925 krónur. Þegar verðið sé orðið svo hátt stendur val neytenda á milli ýsu og nautasteikur. ,,Fólk heldur að hlutabréfamarkaðurinn sé óstöðugur en það er ekkert í samanburði við fiskverð. Dagar eins og þessi eru skelfilegir og þá er engin leið að hagnast á fiskviðskiptum.”

Í fréttinni segir að Íslendingar hafi dregið úr útflutningi á ísuðum fiski til að minnka atvinnuleysi með því að vinna fiskinn hér heima. Auk þess hefur framboðið frá öðrum þjóðum minnkað meðal annars vegna þess að Norðmenn leggja nú aukna áherslu á að selja þorskinn til Frakklands.