þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikið af síld fyrir austan

9. október 2018 kl. 09:17

Venus NS

Mjög góð síldveiði hefur verið djúpt út af Austfjörðum, að sögn skipstjórans á Venusi NS.

HB Grandi skýrir frá því að mjög góð síldveiði hafi verið djúpt út af Austfjörðum.

„Það er búin að vera mjög góð síldveiði frá því að veiðarnar hófust. Það er mikið að sjá og það virðist vera mikið af síld á ferðinni,“ er haft eftir Theódór Þórðarsyni, skipstjóra á Venusi NS, á vef HB Granda.

Tal náðist af honum um miðjan dag í gær þegar búið var að ganga frá síðasta holinu og ferðin til heimahafnar á Vopnafirði var nýhafin. Theódór sagði leiðinlegt veður hafa verið þá þrjá daga sem skipið var á veiðum. Stöðug kvika og þegar verst lét hörkubræla.

,,Við tókum fimm hol og aflinn er rúmlega 1.000 tonn. Síldin hagar sér þannig að hún dýpkar á sér yfir daginn. Fer jafnvel niður fyrir 200 faðma. Svo þegar aðeins fer að skyggja kemur hún upp, allt upp á 30 metra dýpi, og þá er þægilegast fyrir okkur að eiga við hana,” segir Theódór en að hans sögn er síldin stór og falleg, 380 til 400 grömm að þyngd, og aukaafli er enginn. 

,,Við erum núna í þriðja sídartúrnum og síldin hefur haldið sig utar síðustu dagana. Þar, sem við hættum veiðum, voru um 130 mílur í Norðfjarðarhorn og ég reikna því ekki með því að koma til Vopnafjarðar fyrr en um átta leytið í fyrramálið,” sagði Theódór Þórðarson.